140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

ályktun Íslenskrar málnefndar 2011 um stöðu tungunnar.

[13:51]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg):

Virðulegi forseti. Frá því að land byggðist hefur rétt um ein milljón manna átt íslenska tungu að móðurmáli samtals. Það segir okkur að þetta tungumál er lítið og þar af leiðandi í meiri hættu en tungumál stórra og voldugra þjóða. Íslensk tunga hefur alltaf verið í hættu og hugsanlega er hún í meiri hættu í dag en oft áður. Reyndar er það svo að á þeirri öld sem íslenskar gullaldarbókmenntir voru skrifaðar ímynda ég mér að bóklestur þjóðarinnar sjálfrar hafi verið í lágmarki því að þá voru engar bækur til nema skinnhandrit sem ekki var á færi annarra en auðmanna að búa til.

Nú til dags tekur fólk til sín upplýsingar, ekki aðeins með lestri, heldur á margvíslegan annan hátt. Þetta hefur áhrif á stöðu íslenskrar tungu. Það er mikill siður hér að kenna íslenskukennurum og skólum fyrst og fremst um að íslenskri tungu er stundum misþyrmt, meira að segja hérna á hinu háa Alþingi heyri ég henni misþyrmt næstum því daglega, en þetta er ekki mál kennaranna eingöngu. Ég lærði mína íslensku af umhverfi mínu. Kennarar mínir kenndu mér stafsetningu. Bestu kennarar mínir bentu mér á bókmenntir sem ég gæti lesið til að auðga málþekkingu mína. En orsakirnar eru svo margar að það duga engar skyndilausnir.

Þess vegna fagna ég því að við ræðum í framtíðinni einu sinni á (Forseti hringir.) ári um stöðu íslenskrar tungu. Ég held sjálfur að staða íslenskrar tungu sé þannig að miklu nær væri að gera það einu sinni í mánuði (Forseti hringir.) og fyrst og fremst ættum við að vanda okkur sjálf sem hér stöndum og tölum til þjóðarinnar.