140. löggjafarþing — 31. fundur,  5. des. 2011.

deilur Vantrúar við guðfræðideild HÍ.

[15:17]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Um helgina birtist mjög ítarleg og greinargóð fréttaskýring í Morgunblaðinu. Fréttaskýringin bar heitið „Heilagt stríð Vantrúar“ þar sem rakin voru samskipti Vantrúarmanna og Háskóla Íslands í kjölfar kæru sem þeir lögðu fram í febrúar 2010.

Í greininni kemur fram að svo virðist sem átt hafi sér stað ótrúlegt einelti í garð eins kennara í Háskóla Íslands. Þetta hefur gert að verkum að ýmsir hafa komið fram á ritvöllinn, þar á meðal Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur, og gagnrýnt framferði Vantrúarmanna harðlega.

En það er fleira sem virðist vera að í þessu máli og það snýr að Háskóla Íslands og hvernig tekið hefur verið á málinu þar. Svo virðist sem siðanefndin hafi brugðist algerlega í umfjöllun sinni. Ég tel að það sé gríðarlega alvarlegt mál vegna þess að innan háskólanna á einmitt að fara fram málefnaleg umræða.

Mig langar að spyrja hæstv. innanríkisráðherra hvort hann sé reiðubúinn að hefja rannsókn eða skipa nefnd til að fara ofan í þetta. Þarna er vegið að heiðri og æru eins starfsmanns og því athæfi lýst á mjög skilmerkilegan hátt. Er hæstv. innanríkisráðherra (Forseti hringir.) reiðubúinn sem æðsti yfirmaður kirkjunnar að taka á þessu máli?