140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

forsendur fjárlaga og þingskjöl.

[12:07]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég er algjörlega gáttuð yfir því hvernig þessi umræða hefur þróast. Ég verð að byrja á því að þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir þau drengilegu orð sem hún lét falla að gefnu tilefni, því miður.

Hér er, eins og fram hefur komið, staðið við starfsáætlun og hér er farið að fullum þingsköpum. Það er ólíðandi að við þurfum að sitja undir því að borin séu skilaboð utan úr bæ frá fyrrverandi þingmönnum um það hvernig forseti þingsins eigi að haga störfum sínum og stjórna þingfundi, og að sitja undir því að bornar séu kjaftasögur utan úr bæ í þennan ræðustól og þar með misnotaður þessi vettvangur sem heitir Fundarstjórn forseta. (HöskÞ: Nei.) Ég held að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir væri manneskja að meiri ef hún bæði hæstv. forseta afsökunar á framkomu sinni í dag. (HöskÞ: Þú verður að hlusta á það sem hún sagði.) (VigH: Hlustaðu á hvað ég sagði …)