140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[12:39]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalega umræðu. Ég ætla þó að segja að ég tel ekki að við séum komin á skjön við tillögur ráðuneytisins fyrir 2. umr. Við höfum bætt í framlög til sjúkrahúsanna tveggja, Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri. (Gripið fram í.) Varðandi viðbótina upp á 77 millj. er hún ekki fráhvarf frá niðurskurðarkröfu heldur trygging fyrir því að stofnanir standi ekki frammi fyrir því að þurfa að loka þjónustu sem er grunnþjónusta innan heilbrigðiskerfisins og mikilvæg í byggðarlögum.

Hallarekstur stofnana er eitt af þeim viðfangsefnum sem fjárlaganefnd þarf gjarnan að kljást við. Ég er að sjálfsögðu fyllilega sammála hv. þingmanni um að stofnanir sem sýna ráðdeild í rekstri eiga ekki að taka út refsingu fyrir það og ég tel ekki að verið sé að gera það með þessum tillögum. Það getur líka gerst að rekstur stenst ekki áætlun af lögmætum ástæðum og þá ber ekki að refsa stofnunum fyrir það. En stofnanir sem ekki hafa tekið á rekstrinum og safnað upp halla eiga auðvitað að gjalda þess með einhverjum hætti. Samt sem áður þarf að tryggja að starfsemi þeirra geti haldið áfram. Þess vegna tek ég undir með hv. þingmanni að mikilvægt er að hafa samræmdar reglur um hvernig tekið er á slíkum hallahala, ef svo má orða það, að um það gildi einhverjar ákveðnar reglur sem séu það ókræsilegar að forstöðumenn reyni að komast hjá því í lengstu lög að lenda í þannig stöðu. Það verður samt að vera þannig að fyrirsjáanlegt sé að ekki sé vegið að (Forseti hringir.) þjónustu stofnunarinnar með aðhaldsaðgerðum.