140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[15:58]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrir það fyrsta vil ég segja að við framsóknarmenn lögðum fram efnahagstillögur okkar á undan sjálfstæðismönnum. Í efnahagstillögum Sjálfstæðisflokksins var tekið undir fullt af þeim tillögum sem við framsóknarmenn höfum ítrekað lagt til.

Ef hv. þingmaður hefði gert sér far um það að lesa ítarlegt álit mitt fyrir 2. umr., sem er að mér skilst helmingi lengra en það álit sem kom frá sjálfstæðismönnum, hefði hann kannski tekið eftir því að við leggjum einmitt til að farið verði í aðgerðir til þess að auka tekjur ríkissjóðs, ég kom mjög skýrt inn á það áðan í ræðu minni. Við höfum líka lagt til að hér verði aflaaukning vegna þess að við teljum að það geti skapað gríðarlega miklar tekjur fyrir ríkissjóð.

Varðandi það að helminga þetta teljum við einfaldlega að það sé skynsamlegra en að taka alla þá fjárhæð í einu. Við teljum að það sé hægt að útfæra, eins og ég lýsti áðan, annaðhvort með því að helminga tekjuskattsprósentuna eða að skipta þessu í tvo hluta, annar helmingurinn sé skattlagður fyrir fram en hinn eftir á. Þannig erum við líka aðeins að minnka það áfall sem lífeyrissjóðsþegar mundu væntanlega verða fyrir af þessu til framtíðar, því að við horfum upp á, ef þetta verður raunin, að lífeyrisgreiðslur muni minnka á einhvern hátt og koma sem sagt aðeins verr við þá. Við teljum hins vegar að þeir hafi nú þegar notið það mikillar umbunar í kringum neyðarlögin og annað.

Þetta er okkar útfærsla. Við erum viljug til að ræða útfærsluna á þessu ef menn væru reiðubúnir að samþykkja tillögur okkar.