140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:09]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er stutt og laggott svarið við síðustu spurningu hv. þingmanns, svarið er já. (Gripið fram í.)

Ég bendi hv. þingmanni á að í breytingaskjali hans sem lagt er fram við 3. umr. eru ekki gerðar neinar tillögur um að auka framlög til heilbrigðismála á landsbyggðinni. Ég er ekki að segja að hv. þingmaður hafi ekki talað í þá veru en ég bar hins vegar þá von í brjósti að hv. þingmaður hefði ætlað að styðja tillögur okkar um hvernig það yrði gert þar sem við erum búin að tilgreina þær hvað varðar hverja einustu heilbrigðisstofnun þannig að menn sætu við sama borð. Hv. þingmaður verður þá að fara betur yfir skjalið sitt ef hann hyggst leggja það fram. Það er bara góðfúsleg ábending til hv. þingmanns um að vanda betur vinnubrögð áður en hann leggur fram breytingartillögur. (HöskÞ: Þetta er ósanngjarnt.)

Það getur vel verið að hv. þingmanni finnist það ósanngjarnt en þegar menn nota langan ræðutíma í að fjalla um mikilvægi þess að rétta af heilbrigðisstofnanir úti á landsbyggðinni og hvar sem er hlýtur það að vera eðlileg krafa til hv. þingmanna að þeir vinni þá breytingartillögur sínar í samræmi við það. Ég er ekki, og ítreka það, að halda því fram að hv. þingmaður sé ekki áfram um að gera það með þessum hætti, svo að það sé alveg kristaltært. Það er samt mikilvægt að menn vinni breytingartillögurnar þannig að fram komi hvað menn vilja gera.

Mig langar að spyrja hv. þingmann einnar spurningar til viðbótar. Hann leggur fram tillögu um að taka séreignarsparnaðinn. Hefur hv. þingmaður hugsað um hvort eðlilegra væri, í samræmi við að taka þetta inn og fara þá leið sem við höfum viljað gera, að nýta það þá til að létta skattálögum af fjölskyldunum, ekki að fara með þetta inn í hítina, eins og hv. þingmaður kallaði það, en létta í staðinn álögunum af heimilunum.