140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:08]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég stóð hins vegar í þeirri meiningu að efnahags- og viðskiptaráðuneytið mundi fjalla sérstaklega um kaflann sem snýr að því ráðuneyti í fjárlagafrumvarpinu. Þetta eru bara nýjar upplýsingar fyrir mig, ég veit ekki betur.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Ef hlutirnir eru á þann veg að menn taka ákvörðun og skrifa undir skuldbindingar við ákveðna aðila, hver sem það er á hverjum tíma, um útgjaldaaukningu á einhverri stofnun — nú er ég ekkert að leggja mat á það hvort Fjármálaeftirlitið þarf á þessum aurum að halda, ég hef engar forsendur til þess. Það má ekki skilja orð mín þannig. En ég spyr: Til hvers erum við að samþykkja fjárlög ef sumir geta bara gefið út yfirlýsingar og ekki sé tekið tillit til þinglegrar meðferðar á málum sem slíkum um útgjaldaramma til viðkomandi stofnunar? Hvað gerist ef hv. Alþingi hafnar lögunum um að auka eftirlitsgjaldið á fjármálastofnanir til að verða við þessum ósköpum? Hvað gerist þá? Þarf að leggja þetta fyrir Alþingi ef menn líta svo á að þegar búið er að skrifa upp á samkomulag þá sé það bara bindandi fyrir hv. Alþingi?