140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[21:20]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Þessi umræða er að komast á lokapunkt og full ástæða til að þakka fyrir hana og það mikla starf sem er að koma til afgreiðslu þingsins. Það er sérstök ástæða til að þakka hv. fjárlaganefnd fyrir mikilvægt starf að þessu verkefni. Það er alltaf mikilvægur áfangi í störfum þingsins um þetta leyti, að ljúka gerð fjárlaga, og fagnaðarefni að það tekst nú, ef svo heldur fram sem horfir, fyrr en verið hefur hin allra seinustu ár. Það hefur verið gríðarlega erfitt viðfangsefni eftir hrunið að ná endum saman í fjárlagagerðinni og ná að loka fjárlögunum með einum eða öðrum hætti. Það hefur þess vegna, bæði á síðasta ári og árinu þar áður, verið komið býsna nærri jólum þegar loks hefur tekist að ljúka verkinu og eftir mikil fundahöld og oft hatrammar deilur. Það er því líka fagnaðarefni hversu miklu meiri sátt og samstaða hefur verið þrátt fyrir allt um þetta fjárlagafrumvarp og þær línur sem lagðar eru en verið hefur hin seinni ár. Umræður og tillögur stjórnarandstöðunnar hafa margar verið málefnalegar og góðra gjalda verðar en snúa auðvitað ekki að hinum stóru línum í frumvarpinu. Eins og sést þegar breytingartillögur minni hlutans eru skoðaðar hafa deilurnar um fjárlagafrumvarpið að þessu sinni fyrst og fremst verið um lítinn hluta útgjaldanna og áherslumun í því eins og fram kemur í þeim breytingartillögum sem koma til atkvæða á morgun og verða sumar samþykktar og aðrar ekki eftir atvikum.

Í þessu efni er þingmönnum tamt að tala um niðurskurð og ég held að þar séum við í dálitlum ógöngum í fjárlagagerðinni og þurfum að skoða til lengri tíma hvernig við ræðum um ríkisfjármál. Við sjáum til að mynda af Dönum, sem eru þjóð sem náð hefur mjög miklum árangri í ríkisfjármálum og verið farsæl í stjórn efnahagsmála um langt árabil, að sammæli er um það í dönskum stjórnmálum að ákveðið aðhald milli ára sé eðlilegt. Eðlilegt sé að betur takist að nýta fjármunina í ríkisrekstrinum frá einu ári til annars, að þar verði framfarir rétt eins og við gerum þá kröfu til almannageirans að þar verði aukin framleiðni og hagkvæmni ár frá ári sem skili okkur öllum betri lífskjörum. Við höfum með einhverjum hætti fest í því farinu að taka ávallt allar tölur úr fjárlagafrumvarpi fyrra árs, uppreikna þær samkvæmt vísitölum, bæta þeim væntingum við og séu þær ekki uppfylltar að öllu leyti teljum við það vera niðurskurð í öllum tilfellum og fjöllum um það sem slíkt þó svo krónutalan sem verið er að veita til viðkomandi málefnis eða í viðkomandi verkefni sé oft og tíðum umtalsvert hærri en krónutalan á yfirstandandi ári og full rök geti verið fyrir því að þau verkefni sem þar hafa verið unnin á yfirstandandi ári megi á næsta ári gera með hagkvæmari hætti. Á öllum sviðum samfélagsins eiga einfaldlega að verða framfarir, aukin framleiðni, hagkvæmni með nýrri tækni, nýrri þekkingu o.s.frv. Þetta held ég að við þurfum þvert á alla flokka að ræða og kanna hvort við getum ekki tileinkað okkur aðferðafræði annarra þjóða í þessu efni vegna þess að það má ekki vera sjálfvirkur vöxtur í ríkisútgjöldum. Til lengri tíma litið leiðir það okkur í ógöngur. Þegar talað er um ógöngur þá er það auðvitað fagnaðarefni hversu lítil átök hafa verið um þetta fjárlagafrumvarp vegna þess að í upphafi þessa kjörtímabils voru ríkisfjármálin komin í fullkomnar ógöngur. Hallinn var svo gríðarlegur að nærri lá að önnur hver króna sem var á útgjaldahliðinni væri tekin að láni og gerð að skuldum á komandi kynslóðir sem þær þurfa síðan að greiða af vexti um ókomna tíð.

Furðuvel hefur tekist að vinda ofan af þessum vanda þannig að við horfum fram á það að hallinn á næsta ári er, miðað við aðstæður, ásættanlegur um 20 milljarða sem er nærfellt því að vera einn tíundi hluti þess sem hann var þegar verst lét. Við sjáum fram á að geta snúið rekstrinum í plús á næstu missirum og það er mikið fagnaðarefni hversu vel hefur tekist að varðveita störf hjá hinu opinbera og koma þannig í veg fyrir að samdráttur hjá ríkinu yki enn á atvinnuleysi í landinu og þær neikvæðu víxlverkanir sem það hefði kallað á.

Þau atriði sem kannski hafa helst sætt gagnrýni við þetta frumvarp og full ástæða er til að ræða, og jafnframt að gagnrýna, eru annars vegar almannatryggingarnar og hins vegar skattlagning á lífeyrissjóði. Um almannatryggingar er það að segja að það er sannarlega óskandi að bæta megi kjör öryrkja og ellilífeyrisþega meira en gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Ég held að til þess standi hugur stjórnarflokkanna ef á því eru nokkur efni. En fjárlögunum er markaður sá rammi sem tekjurnar skapa og það er einfaldlega niðurstaðan að menn treysta sér ekki lengra í þeim efnum að þessu sinni. En þá verður líka að líta til þess að á þessu ári, yfirstandandi ári, hefur sem betur fer, og var sannarlega þörf á, tekist að rétta nokkuð hlut þeirra sem eru á bótum almannatrygginga einum og hækka þær bætur nokkuð umfram verðlag þó að betur megi ef duga skal. Ég bind vonir við að sú endurskoðun sem stendur fyrir dyrum hjá velferðarráðherra á almannatryggingakerfinu okkar, sem er allt of flókið, gefi færi á að styrkja og bæta kerfið og gera betur við þá sem höllustum fæti standa í samfélagi okkar.

Hvað varðar skattlagningu lífeyrissjóðanna þá hefur einkum verið gagnrýnd skattlagning upp á 1.400 millj. kr. á þessu ári og sambærilega upphæð á næsta ári í tengslum við sérstakar vaxtabætur til skuldugra heimila. Hér er byggt á því samkomulagi sem gert var um þær aðgerðir milli fjármálastofnana, lífeyrissjóða og ríkisins og hefur verið ágreiningur um það hvað það þýddi að lífeyrissjóðirnir ætluðu að fjármagna hluta af þessum sérstöku vaxtabótum. Ég harma það auðvitað að ekki hafi tekist samkomulag um skilninginn á því orðalagi milli stjórnvalda og lífeyrissjóða en vil þó segja að það verður að hafa í huga að þessar álögur, upp á 2,8 milljarða, leiða til þess að sjóðfélagarnir í lífeyrissjóðunum, fólkið í landinu, fá greidda 12 milljarða í sérstakar vaxtabætur á tveimur árum. Er býsna erfitt að henda reiður á því hvernig eigendur sjóðanna eigi að vera verr settir eftir þá aðgerð en áður. Auðvitað er til hennar gripið til að þeir séu betur settir eftir en áður og ekki síst til að eignasafn lífeyrissjóðanna sé betur sett eftir en áður, til að fólk sé í betri færum að standa undir skuldbindingum sínum, halda þeim í skilum með alveg sömu rökum og beitt var gagnvart fjármálafyrirtækjum.

Virðulegi forseti. Það er langt liðið á þessa umræðu og fram á kvöldið. Ég vil ítreka þakkir mínar til hæstv. fjármálaráðherra fyrir frumvarpið og til nefndarinnar fyrir hennar góðu umfjöllun og fagna því aftur hversu lítill ágreiningur um stærri efnisatriðin hefur verið eins og ráða má af þeim breytingartillögum sem fram hafa komið við umræðuna og málefnalega gagnrýni og ábendingar um margt í þessari umræðu allri.