140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:45]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Sá liður sem hér er verið að greiða atkvæði um byggir á því að það sé litið svo á að ekki standi ekki til að standa við þá kjarasamninga sem gerðir hafa verið. Alþýðusambandið hefur lýst yfir áhyggjum sínum og metið það svo að verið sé að þvinga Alþýðusambandið til að segja upp kjarasamningum vegna þess að það hafi ekki verið staðið við þá af hálfu hins opinbera. Ég mun sitja hjá í þessum lið, frú forseti, vegna þess einfaldlega að það er ómögulegt fyrir mig að leggja mat á þetta án þess að hafa fengið um það umræðu, t.d. á vettvangi fjárlaganefndar, hvað sé rétt í þessu máli og hvað ekki.

Það er full ástæða til að hafa miklar áhyggjur af því að Alþýðusambandið skuli hafa lýst þessu yfir. Þar með er komin óvissa um kjarasamninga. En ég endurtek að eðlilegt hefði verið að taka umræðu um þessa þætti á vettvangi fjárlaganefndar þannig að við gætum tekið upplýsta afstöðu til þessa máls. (Forseti hringir.) Því miður er það svo að það hefur verið látið undir höfuð leggjast, frú forseti. Ég mun því sitja hjá.