140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:01]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það eru ekki mörg ár frá því að við tókum þá ákvörðun í þinginu að treysta á opinber framlög til að standa undir rekstri stjórnmálaflokkanna og draga mjög úr möguleikum þeirra til að sækja sér styrki til einstaklinga og lögaðila. Reyndar settum við svo ströng lög um þau efni að hámarksframlagið er rúmlega 30 þús. kr. á mánuði. Það þekkist hvergi annars staðar í Vestur-Evrópu, þetta er langt umfram það sem annars staðar gildir.

Ég tel fullt tilefni til umræðna um þessa hluti vegna þess að skömmu eftir að við ákváðum að treysta meira á opinber framlög til að reka stjórnmálaflokkana lentum við í efnahagskrísu. Það er eðlilegt að við ræðum það hvort nauðsynlegt sé að hafa reglurnar eins og þær eru en hluti þeirrar umræðu er að ræða líka um styrkina og taka til skoðunar hvort ekki þurfi að slaka á þeim ströngu reglum sem gilda fyrir flokkana til að sækja sér styrki til einstaklinga og lögaðila. Þá fyrst getum við talað um að við séum með virkara lýðræði eins og sumir (Forseti hringir.) sem hafa tekið þátt í umræðunni kalla eftir, að fólk fái að styrkja flokka í samræmi við það hversu mikinn stuðning þeir hafa. En að banna nánast styrki frá einkaaðilum og lögaðilum, (Forseti hringir.) takmarka þá við 30 þús. kr. á mánuði, og draga síðan líka úr opinbera framlaginu stenst enga skoðun.