140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

371. mál
[15:28]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég var eiginlega að spyrja hæstv. ráðherra hvort þetta væri innifalið í reglum Evrópusambandsins, að veita mætti flutningsstyrki vegna þjónustu. Ég er að hugsa um til dæmis sportveiðimennsku sem er orðin mjög vinsæl þjónusta og er veitt á Vestfjörðum. En það kostar örugglega mjög mikið að koma ferðamönnunum frá Keflavík til Vestfjarða og getur skaðað samkeppni Vestfirðinga gagnvart sambærilegri þjónustustarfsemi til dæmis í Grindavík sem liggur miklu nær Keflavíkurflugvelli eins og kunnugt er. Ég er eiginlega að spyrja að þessu.

Ég spyr líka vegna þess að Alþingi ákvað fyrir einu eða tveimur árum að veita gífurlega styrki til ferðaþjónustu með því að niðurgreiða bifreiðar til bílaleigna, þ.e. bílaleigur borga miklu lægri vörugjöld af bifreiðum en almenningur á Íslandi og geta svo meira að segja selt þær eftir tiltölulega stuttan tíma til almennings og keppa þar af leiðandi við beinan innflutning. Ég ætlaði bara að spyrja af þessu tilefni.