140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

agi í ríkisfjármálum.

[16:18]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að hefja þessa umræðu og í raun er full þörf á því að við ræðum þessi mál við gott tækifæri á ítarlegra formi en gefst tilefni til eða tækifæri til í stuttri sérstakri umræðu. Það væri rétt, skylt og þarft að við skiptumst á skoðunum um þetta mikilsverða mál, þ.e. heildarmyndina sem snýr að fjárlagagerð, fjárstjórn og eftirliti, reikningshaldi og undirbúningi undir fjárlög hverju sinni o.s.frv.

Ég get verið sammála hv. þingmanni um að ein af mörgum ástæðum fyrir því að við þurfum að hafa sterk tök á ríkisfjármálunum er að sjálfsögðu sú sem hann nefndi varðandi gjaldmiðilinn og styrk hans. Það er augljóst mál að lítill, sjálfstæður gjaldmiðill í opnu hagkerfi kallar á mikinn aga og er krefjandi viðfangsefni hvað varðar styrk tök á ríkisfjármálum og almennt stjórn efnahagsmála. Sömuleiðis varðandi ábyrga stefnu sem snýr að viðskiptum við útlönd og afgang á þeim viðskiptum o.s.frv. Án slíkra hluta mun það aldrei ganga að hafa hér stöðugan og traustan gjaldmiðil í raun óháð því hver hann er. Ekki eru þó síður mikilvægir hagsmunir ríkisins sjálfs í þessu vegna þess mikilvæga hlutverks sem ríkissjóður leikur í samfélagi okkar sem burðarás velferðarþjónustunnar í landinu og innviða samfélagsins. Það er líka mikilvægt að þessi mál séu í föstum og ábyrgum skorðum vegna þess að þá verður betri sátt um þá fjármuni sem við tökum í sameiginlega sjóði því að sjálfsögðu ætlast fólk til þess að vel sé farið með skattfé sem það reiðir af höndum til hins opinbera.

Hv. þingmaður hafði sambandi við mig um fyrir umræðuna varðandi nokkur atriði og vil ég nefna í sambandi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að sú skýrsla sem fjármálaráðuneytið óskaði eftir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ynni um málið, þ.e. um umbætur á lagaumgerð fjárreiðna ríkisins, er ekki enn opinber. Hún hefur verið sýnt fjárlaganefnd í drögum og við höfum óskað eftir því með bréfi að fá að gera hana opinbera, en að við erum ekki í aðstöðu til opinbera efni hennar eða ræða hana í einstökum atriðum fyrr en svar hefur borist við þeirri beiðni okkar.

Ég vil þó leggja áherslu á að sú skýrsla mun ekki sérstaklega fela í sér athugasemdir á núverandi skipan mála og framkvæmd fjárlaga ef litið er í baksýnisspegilinn. Tilgangur skýrslunnar er ekki síður sá að greina hvaða alþjóðlegu viðmið teljist vera til fyrirmyndar í þessum efnum hvað varðar fjárlagagerð, framkvæmd fjárlaga og tilsvarandi eftirlit, og mun AGS væntanlega koma með ábendingar um hvernig löggjöf um fjárreiður ríkisins geti tekið mið af slíkum viðurkenndum viðmiðum. Að sjálfsögðu höfum við líka til hliðsjónar og athugunar fjölmargar ábendingar Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga sem gagnast munu við þá skoðun. Tilgangur alls þessa er að fá stuðning við að styrkja tímabæra endurskoðun fjárreiðulaganna sem fjármálaráðuneytið stefnir nú að að verði lokið helst í mars á næsta ári. Reyndar er slík vinna víða í gangi um þessar mundir og hafa ýmsir veikleikar núgildandi löggjafar og framkvæmdar auðvitað komið í ljós á undanförnum árum. Skortur hefur verið á aga við undirbúning og framkvæmd fjárlaga og eru umbætur á þessu sviði því brýnar. Þar þarf að byggja á bestu þekktum aðferðum og ábendingum stofnana eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Efnahags- og framfarastofnunarinnar og fleiri.

Nefnd um endurskoðun fjárreiðulaga hefur þegar verið skipuð. Hún samanstendur af fulltrúum helstu innlendu sérfræðinga og aðila sem málið varðar. Hagstofa Íslands, Ríkisendurskoðun, Fjársýsla ríkisins, forsætisráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, fjármálaráðuneytið og fulltrúi frá fjárlaganefnd Alþingis taka þátt í vinnunni. Það tryggir vonandi að öll sjónarmið komist að við þá vinnu og við munum sérstaklega gæta þess að eiga gott samstarf við fjárlaganefnd Alþingis og haga því eins og nefndin sjálf telur heppilegast.

Það er rétt að minna á þær lagabreytingar sem þegar hafa orðið með breyttum þingskapalögum hvað varðar tillögu til þingsályktunar um meginskiptingu útgjalda sem nú ber að leggja fyrir Alþingi eigi síðar 1. apríl ár hvert og einnig að nú verður samkomudagur Alþingis annar þriðjudagur í september, sem leiðir til þess að allt fjárlagavinnuferlið færist framar. Það er mikilvægt í því sambandi að styrkja eftirlitshlutverk Alþingis.

Ég legg áherslu á að ýmislegt hefur áunnist í þessum efnum. Frávik í fjáraukalögum frá fjárlögum hafa nú farið minnkandi undanfarin ár, þau hafa verið ívið minni en áður var algengt og mun færri liðir liggja utan 4% viðmiðunarinnar. (Forseti hringir.) Fjármálaráðuneytið uppfærir nú reglubundið svokallaðan veikleikalista og vaktar hann og gerir ráðuneytum viðvart ef stofnanir sem undir þau heyra eru komnar á grátt svæði í þeim efnum.

Það er því margt búið að gerast og þrátt fyrir annríkið og glímuna við stóra dæmið í ríkisfjármálum hefur einnig verið reynt að (Forseti hringir.) þoka áfram vinnu á þessu sviði. Hún fær vonandi aukinn forgang með frumvarpi til nýrra fjárreiðulaga sem lítur dagsins ljós innan fárra mánaða.