140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

agi í ríkisfjármálum.

[16:34]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Það er gott að hafa það í huga úr því að hér er verið að ræða um liðna tíð í ríkisfjármálunum að það er hárrétt sem komið hefur fram, m.a. hjá hv. þingmanni sem síðast talaði, að útgjöld ríkissjóðs uxu mjög, einkum og sér í lagi fjárlög 2008, sem voru að mínu mati fullkomlega út úr kortinu varðandi útgjaldaaukningu. Á móti kom reyndar að tekjurnar jukust gríðarlega mikið og var þó sýnd sú forsjálni að greiða jafnt og þétt niður skuldir ríkissjóðs þannig að þegar kom að hinu mikla efnahagshruni var ríkissjóður allt að því skuldlaus.

Ég verð líka að segja varðandi yfirlýsingar um aga í ríkisfjármálum þessa dagana að það er rétt að hafa í huga það sem m.a. Pétur Blöndal benti á, það eru ýmsar færslur varðandi Sparisjóð Keflavíkur, Byr og fleira sem menn hafa neitað að færa inn í fjárlögin, m.a. það sem hefði átt að koma inn í fjáraukalög síðast. Það gerir það að verkum að myndin verður svolítið öðruvísi þegar menn eru búnir að taka þær tölur með inn í reikninginn. Það vildi ég segja hvað varðar aga í ríkisfjármálum.

Það er rétt sem sagt hefur verið, m.a. sá er síðast talaði, að það eru breytt viðhorf og ég held að þau séu betri hvað fjármál ríkisins varðar. Krafan um aga er líka forsenda þess að við getum verið með okkar eigin mynt, hún er forsenda þess að hægt sé að hafa hér innlenda peningamálastjórn, að það sé agi og samhengi á milli þess sem við erum að gera í fjármálum hins opinbera, þ.e. ríkis og sveitarfélaga, og varðandi peningamálastefnuna. Það er grundvallaratriði. Eitt af því sem brást að mínu mati á síðustu árum var að á sama tíma og Seðlabankinn reyndi að hækka vexti til að draga úr þenslu jukust ríkisútgjöld allt of hratt.

Það er hin stóra lexía sem draga þarf af þessu öllu saman. (Forseti hringir.) En ég vil líka benda á eitt: Við getum þó þakkað fyrir það, hv. þingmenn, að við samþykktum ekki Icesave-reikningana á sínum tíma (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) því að þá litu íslensk fjárlög allt öðruvísi út. (Gripið fram í.)