140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

fjarskipti og Póst- og fjarskiptastofnun.

362. mál
[17:58]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Miðað við áhuga þingmanna virðist þetta ekki vera mjög mikilvægt mál en það er geysilega mikilvægt. Hér er verið að verjast því að gerðar verði árásir á íslenskt tölvukerfi en það gæti haft hörmulegar afleiðingar í för með sér, en um leið er aflað heimilda til að búa til kerfi sem geta tappað óskaplega miklum upplýsingum af netinu á örstuttum tíma, allri umferðinni, og þar á meðal skeytum sem ég sendi hæstv. ráðherra til dæmis, símtölum og öllu slíku. Þetta er hættan sem þessu fylgir og hæstv. ráðherra kom inn á það. Spurning mín er sú: Er staðinn nægilegur vörður um persónuhagsmuni? Hvað gerist ef óprúttnir menn komast til valda sem ráðherrar sem kannski óttast að verða settir af, gætu þeir hugsanlega notað þessa heimild til að gagnast sjálfum sér? Ég er alls ekki að gefa í skyn að það gerist hér á landi en erlendis hafa menn séð að gripið er til ýmissa ráða. Mér sýnist þetta gefi mjög miklar heimildir til inngripa.

Svo er annað. Ég hef áður nefnt að tíðnisvið er sennilega mesta auðlind Íslands, eins og annarra landa, vegna þess að tíðnin er takmörkuð auðlind, rafsegulbylgjur á útvarpssviði eru mjög takmarkaðar. Spurning mín til hæstv. ráðherra er þessi: Hvernig ætlar hann að koma þessari auðlind til þjóðarinnar? Vill hann hafa útboð á þessu til framtíðar eftir 10, 20 ár þegar allt verður orðið fullt á tíðnisviðinu? (Forseti hringir.) Hvernig ætla menn að færa auðlindina til þjóðarinnar?