140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

breytingar á ESB og aðildarumsókn Íslands.

[13:43]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég fagna því að hv. þingmaður deilir áhyggjum af ástandinu í Evrópu og óskar löndunum þar góðs gengis við að leysa úr vandanum.

Um þetta hef ég sagt og get endurtekið að að sjálfsögðu er eðlilegt að við fylgjumst grannt með því hvernig þarna tekst til og þá á ég ekki bara við hvort Evrópusambandinu eða evruríkjahópnum eða þessum 26 af 27 eða hvað það nú verður tekst sæmilega að leysa úr sínum málum, heldur líka hvernig þau gera það. Það er alveg hárrétt að að sjálfsögðu skiptir máli hvort glíman við þessa erfiðleika leiðir til verulegra skipulagsbreytinga á Evrópusamrunanum sem geti jafnvel gert það enn ófýsilegra en áður var fyrir lítil lönd með sérstakt hagkerfi að tengjast þar inn og ganga undir þær kvaðir og skyldur sem ýmislegt bendir til að kunni að koma út úr þessu. Að sjálfsögðu fylgjumst við grannt með því. En það er ekkert að hlaupa frá okkur í þeim efnum. Mér finnst taugaveiklun að rjúka upp með viku millibili og gera út á (Forseti hringir.) erfiðleikana í Evrópu og krefjast einhverra skyndiákvarðana um það sem Alþingi ákvað að yfirlögðu ráði á vordögum 2009.