140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

tekjuhlið fjárlaga.

[13:49]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það var aldrei við öðru að búast en að út úr nefnd kæmi einhver hugmynd um hvernig væri mögulega hægt að láta tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins ganga upp. Það sem ég geri hér athugasemd við er að hæstv. fjármálaráðherra hefur ítrekað sagt í haust, og margir stjórnarliðar, að í fjárlagafrumvarpinu og í tekjuhlið þess væri ekki verið að leggja nýjar álögur, enn einu sinni, á almenning í landinu. Það stenst ekki þegar menn skoða tillögurnar sjálfar, skoða gjöldin og skattana sem er verið að leggja á með þessum útfærslum á því hvernig láta eigi tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins ganga upp. Það stenst ekki að almenningur beri ekki auknar byrðar. Það er það sem ég er að draga fram. Mér finnst kominn tími til að hæstv. fjármálaráðherra viðurkenni og staðfesti þetta vegna þess að það liggur í tillögunum sem nú hafa verið sendar hingað til umræðu á þinginu.