140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

breytingar á evrusamstarfi og umsókn Íslands.

[14:03]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Þessi yfirlýsing hæstv. fjármálaráðherra var mjög áhugaverð. Þegar ákveðið var að sækja um aðild að ESB færðu stuðningsmenn þeirrar umsóknar þau rök fram helst að nauðsynlegt væri fyrir okkur Íslendinga að eiga þann möguleika að taka upp evru. Hér lýsir síðan hæstv. fjármálaráðherra því yfir að mikið umhugsunarefni sé hvort slíkt ætti að gerast þrátt fyrir aðildarumsóknina. Til hvers er þá þessi vegferð farin ef sjálfur hæstv. fjármálaráðherra þjóðarinnar lætur slík orð falla?

Það er svo annað mál að þeim ríkjum sem sækja um aðild að ESB og fá slíkt samþykkt ber, samkvæmt reglum sambandsins, að taka upp evruna. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra. Og það er ástæða fyrir því að hæstv. ráðherra er spurður svona oft. Það er svo langt á milli orða hans og stefnu flokks hans að það er eðlilegt að við spyrjum hér í þinginu. Ég spyr enn á ný: Er ekki ástæða, í ljósi þess að það samkomulag sem liggur fyrir á milli ríkjanna 26 (Forseti hringir.) snýr að auknu valdaframsali, fyrir okkur Íslendinga að nema staðar, leggja mat á stöðuna og leita síðan til þjóðarinnar um skýrt pólitískt umboð til að halda áfram eða stöðva þessa umsókn?