140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[15:09]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég held að það færi afskaplega vel á því að við fengjum niðurstöðu í þessi tvö mál sem fyrst og ekki einhvern tíma seinna vegna þess að við erum að fara í 2. umr. Ég held að hv. þm. Pétur H. Blöndal hafi ýmislegt til síns máls, í það minnsta væri skynsamlegt að setjast aðeins yfir þetta þannig að við séum ekki að brjóta í bága við þingsköp og stjórnarskrá.

Varðandi hinn þáttinn sem hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir vísaði til höfum við hvað eftir annað rætt að það eigi að fara yfir þetta og bent á að ekki sé farið eftir nýju þingsköpunum sem við erum nýbúin að samþykkja. Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að vera með stór orð en vil þó segja að það væri afskaplega skynsamlegt að við kæmumst á sama stað varðandi túlkun á þeim. Ég ætla engum hv. þingmanni að vilja brjóta í bága við þingsköp og það væri vægast sagt kauðslegt ef við gerðum það núna eftir að hafa samþykkt þau (Forseti hringir.) fyrir nokkrum mánuðum með húrrahrópum og lúðraþyt.