140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[21:31]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum þriðju fjárlög sem þessi meinta velferðarstjórn leggur fram. Ég segi meinta vegna þess að ég mun koma nokkrum sinnum að því í ræðu minni að sú velferð sem hér er talað um er í mesta lagi einhvers staðar í hugum manna. Ekki er hún úti í samfélaginu miðað við þær athugasemdir sem þingmenn fá og hinn almenni borgari leggur fram við okkur.

Við höfum heyrt allt of fáa stjórnarþingmenn tala en þeir sem hafa talað hafa ekki verið alveg á sömu blaðsíðu og almenningur og stjórnarandstaðan þegar við ræðum ástand mála á Íslandi. (Gripið fram í: Rétt.) Það er hins vegar athyglisvert að Samfylkingin sem eitt sinn talaði í hverri ræðu um hreina vinstri stjórn er allt í einu farin að tala um vinstri og miðjustjórn. Getur verið að það sé að koma einhvers konar flótti í samfylkingarmenn frá hinni meintu hreinu vinstri stjórn þar sem ljóst er að aðferðafræði sú sem lagt var af stað með hefur ekki gengið og tækifærin sem þessi hreina vinstri stjórn átti að hafa hefur runnið henni úr greipum meira og minna?

Þessi hreina vinstri stjórn sem nú er kölluð miðju- og vinstri stjórn hefur líka verið kölluð norræn velferðarstjórn, jafnaðarmannastjórn og nú síðast stóð hv. þingmaður einn og talaði um í anda vinstri manna. Maður er að verða dálítið ringlaður í því hvar þessi ríkisstjórn staðsetur sig. Ég held hins vegar að við eigum að halda okkur bara við upprunalegu hugmyndina, það nafn sem henni var gefið við fæðingu sem er hin hreina vinstri stjórn vegna þess að það hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á sínum málum, sú stefna sem hér hefur verið mörkuð, er vitanlega í handa hreinna vinstri manna en ekki miðjumanna eða einhverra sem eru hægra megin á þessum svokallaða ási. Það er mikilvægt að hafa þetta í huga því að það er eins og byrjað sé að slá ryki í augun á fólki. Þetta minnir svolítið á það að eftir hrunið og í tíð núverandi ríkisstjórnar þegar talað hefur verið um ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks hefur gjarnan verið talað eins og bara einn flokkur hafi verið í þeirri ríkisstjórn. Það er eins og að fulltrúar Samfylkingarinnar vilji ekki kannast við að hafa verið í hrunstjórninni sem svo er kölluð. Þessu er líka mikilvægt að halda til haga því að Samfylkingin hefur þá verið í ríkisstjórn frá 2007 og fram á vora daga eins og sagt er. En nóg um það.

Nú er ég búinn að fara aðeins yfir skýringar á því hvar þessi ríkisstjórn er staðsett í þessu spektrúmi, ef ég má orða það þannig, en hún er staðsett á einhverri allt annarri plánetu en við hin þegar kemur að því að ræða stöðu Íslands.

Atvinnuleysi hefur verið rætt hér töluvert og það hefur að sönnu minnkað frá því að það var mest eftir hrun. Þó það nú væri. En hverjar eru ástæðurnar fyrir því að atvinnuleysi hefur minnkað? Jú, það er ekki vegna þess að til hafi orðið svo og svo mörg störf til að taka við fólkinu. Það hefur verið gripið til þeirra ráða að fólk kæmist í nám sem er mjög jákvætt. Það hefur verið farið í að auka við atvinnuleysisbætur þannig að þeir sem eru á bótum fái meira greitt og lengur og þess háttar, jákvætt líka. Hins vegar hafa margir einfaldlega flust af landi brott vegna þess ástands sem hér er. Það er vitanlega neikvætt.

Því er mjög sérstakt að hlusta á ræðumenn ríkisstjórnarinnar halda því á lofti að svo og svo mikið hafi verið aukið til velferðarmála þegar aukningin er vegna atvinnuleysis. Það er verið að auka atvinnuleysisbætur og það lyftir velferðarkaflanum. Þetta er nálgun sem á ekki að eiga sér stað í ræðustól Alþingis, að setja málin svona fram.

Hver er svo metnaður þessarar ríkisstjórnar til að mæta þeim áföllum sem við höfum orðið fyrir? Hann er vitanlega enginn. Aðferðirnar sem ríkisstjórnin hefur stundað eru að skera niður og hækka skatta. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson kom afar vel inn á það í sinni ræðu hversu mikinn fjölda af skattbreytingum ríkisstjórnin hefur ráðist í. Hann nefndi í sínu nefndaráliti, ef ég veit rétt, um 140 breytingar eða hvað það er. (Gripið fram í: … voru 142.) Eða 142, já, ég held að það þurfi að fara að setja upp sjálfvirkan teljara, frú forseti, á Alþingi þannig að við getum fylgst með þessum skattbreytingum.

Vegna þess óstöðugleika sem ríkisstjórnin hefur skapað í umhverfinu er ekki mjög freistandi fyrir fjárfesta að koma til Íslands og leggja aurana sína í atvinnustarfsemi. Það er fátt líklega sem þeir þola verr en óvissa um fjárfestingar sínar og fjármuni. Það hefði átt að vera forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar strax eftir hrun að skapa stöðugleika, umhverfi sem bæði fjárfestar og almenningur gæti treyst. Allt hefur verið gert öfugt. Það hefur verið skapað umhverfi sem er mjög óstöðugt þegar kemur að því að horfa til lagaumhverfis. Nægir þá að nefna þessar 142 skattbreytingar og yfirlýsingar einstakra ráðamanna, sérstaklega ráðherra, um hvernig taka skuli á einstökum málum, hvort sem það er þjóðnýting eða frekari skattahækkanir. Fræg eru orð hæstv. fjármálaráðherra, „you ain't seen nothing yet“, þegar hann var að tala um skattahækkanir. Það útleggst á íslensku, frú forseti, „þið hafið ekkert séð enn“, kæru vinir. Þannig heldur þessi stjórn á sínum málum.

Tækifærin frá hruni hafa nefnilega verið óþrjótandi, vil ég meina. Okkur þykir mörgum mjög sorglegt að þau hafi ekki verið nýtt. Í nefndaráliti sínu segir hv. þm. Birkir Jón Jónsson, með leyfi forseta:

„Við höfum fiskinn, orkuna, vatnið, náttúruna og mannauðinn til að koma okkur hratt út úr efnahagsþrengingum.“

Á þetta hefur stjórnarandstaðan margoft bent og þingflokkur framsóknarmanna hefur lagt fram fjöldann allan af tillögum til að benda á hvaða leiðir er hægt að fara, til hvaða aðgerða er hægt að grípa til að nýta þessi tækifæri.

Frú forseti. Ég ætla að nefna þrjár tillögur sem lagðar hafa verið fram. Í fyrsta lagi endurfluttum við á síðasta þingi tillögu sem við kölluðum samvinnuráð um þjóðarsátt þar sem við lögðum til tíu aðgerðir sem við vildum reyna að ná öðrum flokkum eða öðrum þingmönnum og ríkisstjórninni þá með okkur á sem brýn verkefni til að snúa hlutunum við. Þetta var að sjálfsögðu kæft einhvers staðar hjá stjórnarliðinu. Það er erfitt að henda reiður á hvar það var, en þessi tillaga var forsætisráðherra afhent sérstaklega í Stjórnarráðshúsinu á einum af hinum meintu samráðsfundum sem voru eins og tilkynningarfundir frá forsætisráðherra, eiginlega eins og tilkynningar sem berast í útvarpi um einhvers konar samkomu. Þannig voru þessir meintu samráðsfundir.

Síðan leggjum við fram á þessu þingi tillögu um stöðugleika í efnahagsmálum sem byggir á sama grunni. Það er verið að leggja fram tillögur um hvernig megi afla tekna, hvernig megi komast hjá þeim mikla niðurskurði sem hefur verið farið í, þ.e. svona miklum eins og hann varð. Það er öllum ljóst að eitthvað varð að skera niður. Við vildum hins vegar fara aðrar leiðir, eins og kemur fram í þessum tillögum okkar, og samhliða þessu höfum við lagt fram mjög ítarlega þingsályktunartillögu sem fjallar sérstaklega um atvinnumál og til hvaða aðgerða er hægt að grípa til að efla atvinnu. Því miður er það svo, frú forseti, að þrátt fyrir fögur fyrirheit stjórnarflokkanna um að hlusta á allar tillögur og gefa þeim séns hefur lítið orðið úr því. Að minnsta kosti veit ég ekki til þess að þessar tillögur okkar hafi fengið einhverja sérstaka umfjöllun.

Eins og flestir vita höfum við talað fyrir því að blandaður rekstur ríkiskerfisins, þ.e. einkarekstur, samvinnurekstur og ríkisrekstur, sé besta formið. Það er það sem hefði átt að horfa til þegar við þurftum að skipuleggja okkur út úr hruninu.

Ég ætla að nefna tvö mál sem mér finnst varla hafa hlotið nógu mikla umfjöllun og ekki verið nógu mikill áhugi fyrir innan Alþingis, sérstaklega ekki hjá stjórnarflokkunum. Annað er um möguleika okkar á olíu. Það hefur verið svolítill vandræðagangur á því hvernig á að halda á þeim málum. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur þó reynt að pota málinu áfram en einhvers staðar hafa verið veggir sem ráðherrann hefur rekið sig á við að koma áfram þessum fínu hugmyndum, því fína máli sem snýr að olíuleitinni.

Olíuleit við Ísland var mjög áhugaverður kostur, og er það enn. Ég hefði viljað sjá miklu fyrr aukið samstarf við erlenda aðila, Norðmenn, og fara þá leið að fela þeim ákveðna hluti gegn afgjaldi ef þarna fyndist olía til að reyna að hraða því ferli. Nú hafa þau gleðitíðindi borist að það séu meiri líkur á að þetta sé hægt að vinna þarna eða finna olíu og þá þurfum við aldeilis að huga vel að því, ekki sitja hjá heldur halda vel á spöðunum og taka þátt í því verkefni eins hratt og mikið og við mögulega getum.

Hins vegar er sjávarútvegurinn, hann er og verður meðal burðargreina þjóðarinnar. Þess vegna hefur verið mjög sérstakt að sjá hvernig ríkisstjórnin hefur í þessi þrjú ár lagt sig fram við að skapa sem mesta óvissu um sjávarútveginn, bæði í nútíð og framtíð. Það er mjög bagalegt. Hvað sem mönnum finnst um það afgjald sem sjávarútvegurinn á að greiða og allt það er vitanlega ekki hægt að fara fram á slíka hluti þegar óvissan um framtíðina er alger. Einstaklingarnir sem vinna við sjávarútveginn, sem skipta þúsundum, og þeir sem reka þessi fyrirtæki, sem skipta tugum eða hundruðum, þurfa að hafa einhverja vissu um framtíðina. Það er gjarnan látið í það skína að sjávarútvegurinn sé örfáir menn sem ráða öllu og stjórna, en að baki þessum fyrirtækjum er fjöldi hluthafa og enn þá fleiri einstaklingar sem vinna hjá þessum fyrirtækjum. Framtíð þessa fólks er öll búin að vera í uppnámi.

Það hefur verið ágætur gangur í sjávarútveginum og góð tekjuöflun þar. Auðvitað eiga menn þar í skuldum sem komu þegar gengi krónunnar var með öðrum hætti en það er í dag. Það hefur verið mjög mikilvægt að vinna með þessu fólki að reyna að nýta þetta svigrúm sem er í sjávarútveginum í dag til að örva fjárfestingu og hleypa af stað lífinu í landinu. En þvert á móti, frú forseti, er skellt í lás og farið fram með ótrúlegum hætti um sjávarútveginn.

Það er reyndar kostuleg staða ef við horfum á hvernig haldið hefur verið á sjávarútvegsmálum að í rauninni hefur stjórnarandstaðan ekki þvælst fyrir þeim málum heldur hefur ríkisstjórnarflokkunum ekki tekist að koma fram með trúverðug mál. Síðasta mál sem kom fram og fór inn í þingið varð sem betur fer að engu því að enginn umsagnaraðili gat mælt með því. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ákvað því að fara aðra leið, hlusta á þær athugasemdir og fékk hóp manna til að skrifa nýtt frumvarp. Þegar hæstv. ráðherra kom fram með það var því fundið allt til foráttu, allt talið ómögulegt. Nú er það frumvarp í einhvers konar sérstakri meðferð hjá ríkisstjórninni eins og margt ágætt er í því.

Til að geta horft framan í almenning og sagt honum að framtíðin sé björt þýðir ekki alltaf að koma með skattahækkanir og niðurskurð. Það verður að vera hægt að veðja á eða horfa til framtíðar um störf og verðmætasköpun. Það er það sem vantar í þær tekjuöflunaraðgerðir sem við ræðum hér, það sem vantar í stefnu ríkisstjórnarinnar er metnaðurinn til að skapa tekjur. Ég leyfi mér að fullyrða að margar þeirra ráðstafana sem hér eru uppi á borðinu eru hreinlega til þess fallnar að draga úr tekjum ríkissjóðs vegna þess að skattheimta á bensín eða olíur dregur úr umferð, skattheimta á áfengi dregur úr neyslu áfengis og þar með sölu. Það er svo sem jákvæður punktur við það líka en það minnkar hins vegar tekjurnar í ríkissjóð.

Hér hefur verið rætt um að almenningur greiði lægri skatta en áður. Það kann að vera rétt en það er ekki hægt að horfa fram hjá þeirri staðreynd að launin eru vitanlega lægri. Ég vona að hagfræðingarnir í salnum geti kinkað kolli yfir því. Ég segi þetta, frú forseti, vegna þess að það er ekki hægt að ræða þessi mál af einhverju viti þegar rangindum er haldið á lofti. Laun hafa lækkað og þar af leiðandi eru minni skattar greiddir.

Hér hefur líka verið rætt um almenna lífeyriskerfið og lífeyriskerfi opinberra starfsmanna. Ég ætla að segja það sem mína persónulegu skoðun að þetta þarf að laga. Það þarf að jafna réttindin milli þessara kerfa og það á ekki að heykjast á því. Það verður ekki vinsælt hjá öllum en það verður hins vegar að gera það. Ég verð að segja fyrir mína parta að mér finnst mjög óeðlilegt að við sem greiðum í opinberu sjóðina séum á einhverjum sérkjörum umfram aðra. Mér finnst líka óeðlilegt að þegar annar aðilinn í hjónabandi fær greiðslu úr almenna kerfinu og hinn úr opinbera kerfinu sé sífellt verið að skerða greiðslur þess aðila sem fær úr almenna kerfinu en hinn aðilinn sem fær úr opinbera sjóðnum fær alltaf sömu tölu. Þetta er ekki réttlátt en það er viðkvæmt að leiðrétta þetta. Það verður þó að gera til að hér náist einhvers konar jafnræði þegar kemur að þessum hlutum. Það kann að vera að einhver sársauki sé í því fyrir opinbera kerfið og líka almenna kerfið því að ég er líka þeirrar persónulegu skoðunar að það séu of margir lífeyrissjóðir í almenna kerfinu og að þeir eigi að vera færri. Það er okkar að fara í gegnum þessar pælingar, ef ég má orða það þannig, ef ekki kemur fram vilji frá þeim er stýra málum úti á akrinum.

Í nefndaráliti hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar er farið vel yfir aðdragandann og helstu atriði í þessum svokallaða bandormi. Meðal þess sem hv. þingmaður nefnir er að fjármálaráðherra hafi gengið vasklega fram í niðurskurði og verður ekki annað sagt en að það hafi tekist býsna vel hjá hæstv. ráðherra enda er staðan víða þannig, sérstaklega úti á landi, að heilu byggðarlögin hafa verið í einhvers konar losti yfir því að mikill niðurskurður í heilbrigðismálum og hjá öðrum opinberum stofnunum hefur leitt til fækkunar starfa, jafnvel starfa sem hefur tekið áratugi að berjast fyrir að fá á þessa staði.

Í nefndaráliti 2. minni hluta, hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar, er dregin fram sú staðreynd að fjárfesting hefur ekki verið minni um árabil og þarf engan að undra þar sem óvissan fyrir þá sem vilja fjárfesta er nánast alger. Í nefndarálitinu er líka minnst á álit starfshóps iðnaðarráðherra sem er að vinna að tillögugerð um stefnu stjórnvalda varðandi erlenda fjárfestingu. Í því kemur fram, með leyfi forseta:

„Auk þekktra hindrana á borð við gjaldeyrisáhættu og sveiflur í hagkerfinu þá er talað um landsáhættu vegna skyndilegrar og ógagnsærrar ákvarðanatöku stjórnvalda og seinagangs og ófaglegra vinnubragða í stjórnsýslu.“

Ég verð að segja að þetta er nákvæmlega það sem mörg okkar hafa haldið fram í þessum ræðustól, að þetta sé eitt af stærstu vandamálunum sem blasir við þeim sem vilja gera eitthvað í atvinnulífi á Íslandi. Það er sú mikla óvissa og hringlandaháttur sem þessir stjórnarflokkar hafa verið með síðan þeir tóku við. (BJJ: Hárrétt.) Já, að sjálfsögðu.

Síðan er hér liður sem fjallar um lækkun á frádrætti vegna séreignarlífeyrissparnaðar. Auðvitað eru um þetta skiptar skoðanir og það kemur fram hjá öðrum er skila einnig inn álitum um málið að sýnin á þennan hluta er misjöfn. Það er þó ljóst af þeim sem hafa fjallað um það að með því að lækka frádráttinn úr 4% í 2% og búa þannig til 1,4 milljarða sé verið að fara inn í mikla breytingu sem mun leiða til minni sparnaðar. Að mínu viti er það mjög neikvætt ef við búum til kerfi sem hvetur fólk til að sleppa því að spara. Þetta hefur verið sú sparnaðarleið sem mjög margir hafa farið, kannski jafnvel eina leiðin sem einhverjir fara. Ef ég hef tekið rétt eftir hefur Fjármálaeftirlitið einmitt gagnrýnt þessa ráðstöfun og bent á að þetta muni leiða til minni sparnaðar.

Hér er einnig gagnrýnt að þó að krónutöluhækkanir á sköttum kunni að virðast sársaukaminni en prósentuhækkanir muni þær leiða til breytinga á verðlagi sem muni leiða til þess að líklega munu lán heimila hækka um töluvert marga milljarða verði þetta allt að veruleika. Það er að sjálfsögðu von okkar að efnahags- og viðskiptanefnd muni fara yfir málið í fyrramálið og draga eitthvað úr þessum skattahækkunum. Ég vil nefna nokkur atriði í því sambandi sérstaklega. Ég held að það sé afar mikilvægt að endurskoða þær hugmyndir sem hafa verið uppi með að fara að krukka í sjávarútvegsmálin og taka inn í ríkissjóð þá litlu fjármuni sem runnið hafa til baka í nýsköpun í sjávarútvegi, t.d. í AVS-sjóðinn. Ég held að það yrðu mikil mistök því að það er gríðarlega mikilvægt að hafa það á hreinu að ákveðinn hluti af þessum sköttum, eða hvað sem þessi gjöld sem lögð eru á greinina eru kölluð, komi að einhverju leyti til baka. Auk þess má nefna fjölmörg verkefni sem hafa fengið styrki úr þessum sjóði og efla atvinnu og skipta miklu máli á þeim stöðum þar sem þeir hafa komið.

Kolefnisgjald í samgöngum er mjög varhugavert og ég legg til að nefndin skoði það sérstaklega að kolefnisgjald sem lagt er á flug verði tekið til endurskoðunar. Við erum ekki með mörg flugfélög á Íslandi, reyndar líklega bara tvö sem sinna innanlandsflugi ef ég man rétt, og þetta mun hafa veruleg áhrif á rekstur þeirra. Jafnvel mun sá styrkur sem er í útgjaldafrumvarpinu, fjárlagafrumvarpinu, breyta litlu ef þessi skattlagning hangir inni. Þetta eru heldur ekki sérlega háar upphæðir í stóru myndinni.

Síðan er að sjálfsögðu mjög sérstakt að sjá hækkanir á eldsneytisskattinum þar sem þær munu fara beint út í verðlag og hafa einhver áhrif á skuldir heimilanna. Þær munu líka hafa áhrif, sérstaklega á þá sem þurfa að nota bifreiðar mikið sem eru þeir sem fara langan veg í vinnu og þeir sem þurfa að ferðast eftir þjónustu. Vegna þess að það er búið að skera svo mikið niður í heilbrigðisþjónustu landsbyggðarinnar þurfa íbúar hennar að sækja hana annað, þurfa þá að fara um langan veg og greiða aukinn kostnað þegar ferðakostnaðurinn hækkar.

Síðan er vitanlega allt þetta tal um velferðarstjórnina alveg sérstakur kapítuli út af fyrir sig. Ég held að það séu eiginlega allir farnir að sjá í gegnum raupið um þessa velferð. Alþýðusamband Íslands sem lengst af hefur verið einn helsti stuðningsmaður þessarar ríkisstjórnar hefur barið í borðið og sagt: Hingað og ekki lengra. Þá er alveg ljóst að eitthvað mikið gengur á. Alþýðusambandið fjallar á heimasíðu sinni í dag um atvinnuleysið sem eykst milli mánaða en það er vissulega minna milli ára, bara rétt að halda því til haga. Hins vegar er annað áhyggjuefni sem fram kemur í þessari frétt frá Alþýðusambandinu, það að langtímaatvinnuleysi hefur fest sig í sessi. Það er gríðarlegt áhyggjuefni ef við upplifum það, eins og margar aðrar þjóðir, að hér verði jafnvel til kynslóðir sem þekkja ekki annað en atvinnuleysi. Það er ekkert mikilvægara en að við séum með alla í vinnu og skapa þar með verðmæti og þá tekjur fyrir ríkissjóð til að standa undir velferðarkerfinu.

Það er því miður þannig að allur sá fjöldi sem er á einhvers konar bótum frá ríkinu býr ekki til verðmæti fyrir ríkissjóð til að spila úr. Þetta er hins vegar fólk eins og allir aðrir og þarf að hafa í sig og á. Vitanlega er sorglegt hversu stór þessi hópur er orðinn.

Hitt sem tengist þessu er að Alþýðusambandið hefur einnig gagnrýnt mjög harkalega vilja ríkisstjórnarinnar til að fara í þetta svokallaða sveltitímabil með atvinnulausa, þ.e. að halda til streitu þessu þriggja mánaða sveltitímabili langtímaatvinnulausra. Vitanlega þarf þetta ágæta fólk einhvern veginn að framfleyta sér þessa þrjá mánuði og þá er því vísað til sveitarfélaganna sem eiga fullt í fangi með að sinna verkefnum sínum. Ég held að þetta sé varla hugsað í botn frekar en margt annað hjá ríkisstjórninni.

Af því að ég er að tala um atvinnumálin vil ég nefna átakið Allir vinna sem hefur verið í gangi um nokkurt skeið. Ég nefni það hér af því að ég hef ekki heyrt, það hefur kannski farið fram hjá mér, frú forseti, að halda eigi þessu verkefni áfram en þetta er ein af bestu hugmyndunum sem þessi ríkisstjórn hefur hrint í framkvæmd. Ég hvet til þess að hæstv. fjármálaráðherra og velferðarráðherra beiti sér fyrir því að þetta verkefni verði framlengt. Það er staðreynd, það hefur komið fram, að það eykur umsvif í hagkerfinu, skaffar og býr til verkefni. Þess vegna hvet ég til þess að þessi góða hugmynd verði áfram við lýði.

Þegar Alþýðusambandið talar um að ríkisstjórnin sé að ráðast á réttindi launafólks er það í rauninni stimpill eða staðfesting á því sem margoft hefur verið haldið fram, í marga mánuði, í þessum ræðustól, á því að ríkisstjórnin sé á rangri leið. Það er mjög hart að ekki sé horfst í augu við þær tillögur sem hafa komið fram og brugðist við gagnrýni. Eins og við vitum úr hinu svokallaða hruni er ein af mestu skyssunum sem gerðar voru þá að hlusta ekki á þau varnaðarorð sem voru uppi.

Miðstjórn Alþýðusambandsins ályktaði í síðasta mánuði og, með leyfi forseta, ætla ég að lesa lok þeirrar ályktunar:

„Miðstjórn Alþýðusambands Íslands hafnar alfarið síendurteknum árásum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur á íslenskt launafólk. Ef ríkisstjórnin fer fram með þær hugmyndir sem hér hafa verið reifaðar mun henni verða svarað af fullri hörku.“

Einhvern tímann hefði verið lagt við hlustir þegar slíkt kæmi frá Alþýðusambandinu. Það er hins vegar vel þess virði að bera saman hvenær verkalýðshreyfingunni hefur tekist hvað best að hækka laun umbjóðenda sinna og ég hygg að ef það yrði skoðað væri það ekki þegar vinstri stjórnir eru við völd heldur á öðrum tímum. Það er kannski óábyrgt að segja þetta en ég hvet til þess að þetta verði þá skoðað og hrakið.

Síðan hefur fólk á vegum Öryrkjabandalagsins, framkvæmdastjóri og aðrir, verið að tala um hversu erfitt og illt sé að treysta því sem ríkisstjórnin segir.

Frú forseti. Ég ætla að nefna eitt sem hefur enn ekki mikið verið nefnt og það er staða heimilanna. Það er nauðsynlegt að minna á að enn hefur ekki verið ráðist í þær leiðréttingar sem nauðsynlegar eru á lánum heimila. Eins og stjórnarliðar segja iðulega í þessum ræðustól með mikilli áherslu á orð sín varð hér hrun og ég held að fáir finni jafnmikið fyrir því og íslensk heimili. Það hefur verið farið í breytingar á hluta af lánum íslenskra heimila sem snúa að erlendum, ólöglegum lánum og breytingu á þeim en ekkert hefur verið gert, a.m.k. ekkert sem telur, fyrir þá aðila sem hafa verið með íslensk, verðtryggð lán þar sem stökkbreytingin varð ekki minni. Útreiknað er að lánin hafa hækkað um 36–40% frá því í byrjun árs 2008, ef ég man rétt.

Þetta er grafalvarlegt mál og framsóknarmenn hafa verið leiðandi í því að koma með tillögur til lausnar á þessum málum. Við þekkjum velflest þær hugmyndir. Það hefur komið á daginn að ef gripið hefði verið til þeirra væri staðan öðruvísi, en því miður var farin önnur leið og því kann að vera að það sé erfiðara að fara núna okkar leiðir.

Formaður Framsóknarflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, kynnti fyrir skömmu mögulega aðra leið sem er að nota skattkerfið til að koma til móts við fólk með miklar húsnæðisskuldir. Í stuttu máli gengur sú hugmynd út á að hluti tekna sem það notar til að borga niður lán sín sé frádráttarbær frá skatti, t.d. í þrjú ár, og þannig gengi hraðar að greiða niður lánin því að þetta yrði hvati til að borga hraðar inn á, þ.e. þeir sem það geta. Aðrar ráðstafanir yrðu vitanlega að vera til fyrir þá sem ekki geta greitt inn á lánin. Þetta er nokkuð sem er verið að útfæra nánar og sem ég vona að fái góðar viðtökur í þingsal og hjá ríkisstjórninni þó að sú von sé að sjálfsögðu afar veik.

Við erum að tala um vandræðagang við tekjuöflun, hversu erfitt sé að ná endum saman. Mig langar að velta því upp í þessari umræðu hvernig dæmið liti út ef við hefðum ekki gripið í taumana í þessu Icesave-máli, ef hluti þingmanna hefði ekki staðið með þjóðinni og forsetanum í að koma því máli í þann farveg sem það er í í dag, að verjast ágangi þeirra sem vilja endilega demba þessu yfir þjóðina. Þá þyrftum við að vera með tugi milljarða í þeim fjárlögum sem við ræðum hér til að standa skil á vaxtagreiðslum og öðru slíku. Ekki sæi fyrir endann á því hver endanleg greiðsla yrði. Auðvitað er málið ekki leitt til lykta en á því hefur verið haldið á mjög góðan hátt frá því að síðasta þjóðaratkvæðagreiðsla fór fram. Þá skipti hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um gír og hefur haldið afar vel á málinu síðan. Það er mikilvægt að halda áfram þeirri vinnu. Icesave-málið hefur kennt okkur að mikilvægt er fyrir okkur að standa á rétti okkar, láta ekki þvinga okkur til óeðlilegra hluta eins og svo sannarlega var reynt í þessu máli.

Ég ætla að nefna líka mikilvægi þess að afnema verðtrygginguna. Við höfum lagt fram fjöldann allan af tillögum um hvernig megi gera það. Meðal annars höfum við lagt til að það verði gert í áföngum, þak sett á verðtrygginguna og hún síðan tekin smám saman úr sambandi. Þetta er nokkuð sem hægt væri að gera. Þetta er aðferð sem hægt væri að ákveða hér í kvöld ef vilji væri til þess. Því er hins vegar haldið fram af hinum áköfu aðildarsinnum, þeim sem vilja ganga í Evrópusambandið, að það sé bara ekki hægt að gera þetta nema ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Það er vitanlega alger fásinna. Það er hins vegar sjálfsagt að reyna að nota þetta vopn þegar allt annað er hrunið eða ekki hægt að nota önnur vopn í baráttunni fyrir þessu sambandi, þ.e. að nota þetta á fólkið í landinu, reyna að telja því trú um að ekki sé hægt að afnema verðtrygginguna nema ganga í Evrópusambandið. Þetta er eins og að halda því fram að ekki sé hægt að afla fjár í ríkissjóð án þess að koma fyrst við á tunglinu, þetta er álíka vitlaust. En þessu er haldið fram.

Frú forseti. Það er verið að eyða hundruðum milljóna í aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Það eru milljónir, og í rauninni milljarðar, sem væri hægt að nýta í aðra hluti, skapa atvinnu, standa straum af bótasjóðum til að örva nýsköpun og til að minnka niðurskurð á heilbrigðisstofnunum. Það er hins vegar eins og hæstv. ríkisstjórn og stjórnarflokkunum sé algerlega fyrirmunað að horfa út um gluggann og sjá að það er snargalið að halda þessari umsókn áfram. Það væri réttast að leggja hana til hliðar nú strax, nota þá fjármuni sem eru nú á fjárlögum í þau verkefni sem ég nefndi áðan. (Gripið fram í.) Akkúrat. Það er þannig, frú forseti, að þeir sem fylgjast með fréttum hafa séð í dag og í kvöld að ef við gefum okkur að evran lifi, sem er alls ekki víst, eru samt einhverjir áratugir í að Ísland geti komist í þann hóp ef einhverjum skyldi detta það í hug. Hitt er líka víst að Evrópusambandið verður mörg ár, jafnvel áratugi, að ná sér eftir þann storm sem geisar þar í dag. Þar af leiðandi er eina skynsamlega ályktunin sem hægt er að draga sú að leggja umsóknina til hliðar og einbeita sér að öðru meðan þetta fárviðri geisar. Það er ekki hægt að horfa framan í þjóðina líkt og hæstv. utanríkisráðherra gerir, nánast eini maðurinn á norðurhveli jarðar sem talar eins og að Evrópusambandið sé að ná sér og sé í lagi. Það finnst kannski einn maður sem talar þannig og það er hæstv. utanríkisráðherra Íslands.

Frú forseti. Það er ekki hægt að búa við þetta. Í raun væri mjög mikilvægt að flokksfélagar hæstv. utanríkisráðherra gerðu honum grein fyrir því og kynntu fyrir honum erlendar fréttasíður því að þar kemur stanslaust fram, oft á dag, hvernig ástandið er. Nú er talað um að í fyrsta lagi í mars á næsta ári verði kominn einhver botn í þær aðgerðir sem á að grípa til. Hvernig halda menn að ástandið verði í mars á næsta ári? Er ekki rétt að bíða aðeins og sjá til? Eða inn í hvaða Evrópusamband vilja stjórnarliðar fara í dag? Er það Evrópusamband 1, 2 eða 3 eða hvað þau verða mörg þegar upp verður staðið? Þarna er þessu brölti haldið áfram, allt í boði hinnar vinstri norrænu velferðarjafnaðarmannastjórnar sem vinstri grænir bera að sjálfsögðu hvað mesta ábyrgð á varðandi þetta Evrópuferli því að þeir hleyptu því af stað. Það er athyglisvert að sjá hversu hart hæstv. fjármálaráðherra gengur í að verja þetta brölt allt saman.

Frú forseti. Ég hef stiklað á stóru í gagnrýni á þetta frumvarp. [Hlátur í þingsal.] Það er hægt að fara mörgum fleiri orðum um málið. Ég hef kannski tekið nokkra snúninga fram hjá efnisinnihaldi frumvarpsins en það er vegna þess að það efni tengist frumvarpinu beint og óbeint. Það er ekkert grín að vera í mörg hundruð milljóna eða milljarða aðildarumsókn þegar við náum varla endum saman hér heima. Það þýðir ekkert fyrir þingmenn að hlæja að slíkum hlutum. Þetta er alvarlegt mál og á því verður að sjálfsögðu að taka og á því ber ríkisstjórnin ábyrgð.

Frú forseti. Þetta er pólitískt plagg, pólitísk yfirlýsing, en ég hvet eindregið til að efnahags- og viðskiptanefnd taki þetta mál í fyrramálið ég held að það sé líka planið, og sníði af því þau helstu horn sem hefur verið bent á í dag. Að sjálfsögðu bera ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir ábyrgð á þessari tekjuöflun líkt og þeir bera ábyrgð á útgjöldunum.