140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[22:27]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum glatað þremur árum, mikilvægum árum í því að koma hjólum efnahagslífsins og heimilanna í gang á ný, mikilvægum árum í því að snúa hlutunum við. Við höfum — og þegar ég segi við er ég að meina okkur í þingsalnum og ríkisstjórnina — ekki náð í gegn með það sem þarf að gera.

Við, þingmenn stjórnarandstöðunnar, höfum bent á það trekk í trekk hvað þurfi að gera til að koma hjólunum af stað; það þarf að auka atvinnu, atvinnu og atvinnu. (Gripið fram í.) Það er þetta þrennt sem fyrst og fremst þarf að gera: Atvinna, atvinna og atvinna.

Ríkisstjórnin hefur ekki viljað hlusta á þetta, hefur ákveðið að kýta og slást innbyrðis um málefni sem eru algjörlega aukreitis þegar kemur að stóru myndinni. Hún hefur skemmt fyrir, sett heilu atvinnugreinarnar í uppnám. Það er á hennar ábyrgð. Hún ber ábyrgð á því að hafa klúðrað þessum þremur árum, klúðrað þessu tækifæri. Við berum ábyrgð á því að hafa kannski ekki talað miklu hærra, sem við þurfum þá að gera á næstu mánuðum.

Ég ætla að biðja hv. þingmenn að hugsa um ævintýrið Nýju fötin keisarans þar sem keisarinn sprangaði nakinn um bæinn, taldi sig vera í fínustu fötum sem framleidd hefðu verið en bæjarbúar sáu að keisarinn var án klæða. Þannig er þessi ríkisstjórn.