140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[11:30]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Mig langar að spyrja formann efnahags- og viðskiptanefndar út í breytingartillögu meiri hluta nefndarinnar þar sem lagður er sérstakur 6% fjársýsluskattur á hagnað fjármálafyrirtækja yfir 1 milljarði. Síðast þegar ég nennti að leggja hagnað bankanna frá hruni saman var hann kominn upp í 163 milljarða, sem mér finnst absúrd tala og eitthvað hefur nú bæst við.

Ég hef verið með hugmyndir um að leggja einhvers konar hvalrekaskatt, eða „windfall tax“ á ensku, á hagnað bankanna. Hér finnst mér vera kominn vísir að því. Mig langar að spyrja þingmanninn hvort hann telji gerlegt að hækka þessa tölu.