140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[21:36]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Svo ég haldi aðeins áfram með það sem frá var horfið í fyrra andsvari þar sem við ræddum sparisjóðina þá er það einfaldlega þannig að við framsóknarmenn höfum talið að það sé ákaflega mikilvægt að hafa sem fjölbreyttast úrval af fjármálafyrirtækjum á markaði og við teljum að sparisjóðirnir séu algjörlega nauðsynlegir á þeim markaði. Það hefur líka komið ítrekað í ljós á síðustu árum í skoðanakönnunum eða vinsældakosningum þeirra sem nýta sér þjónustu fjármálafyrirtækjanna að sparisjóðirnir hafa ævinlega unnið og verið taldir bestu þjónustufyrirtækin á þeim markaði.

Varðandi það að efnahags- og viðskiptanefnd eigi samúð þingmannsins vegna þess að hún fái einfaldlega ekki nægan tíma og málið sé ekki nægilega vel skoðað, eins og kemur fram í nefndarálitum 1. og 2. minni hluta, er það auðvitað alveg rétt, ég tek undir það. Það er almennt vandamál hérna í þinginu að við gefum okkur of lítinn tíma, það er of mikill asi á að klára mál. En það er kannski ekki skrýtið þar sem núverandi ríkisstjórn var búin að gera fyrir bandorminn yfir 140 breytingar á skattkerfinu og kannski yfir 200, eins og nefnt hefur verið, eftir þær breytingar sem voru gerðar í dag. (Gripið fram í.) Það eru ekki bara endalausar breytingar á skattkerfinu, sem menn kannski þekkja, heldur er stöðugt verið að koma með nýjar hugmyndir. Það þýðir að nefndir þingsins þurfa lengri tíma til að gaumgæfa þær breytingar, fá umsagnir frá hagsmunaaðilum og öðrum aðilum, sérfræðingum úti í bæ, frá samfélaginu. Og þegar menn eru síðan búnir að lagfæra það þarf auðvitað að vera tími til að senda það aftur til umsagnar og fá aftur skoðun á því hvernig þetta lítur út áður en menn henda þessu inn í atvinnulífið og valda hugsanlega varanlegum skaða eins og (Forseti hringir.) hugmyndir hæstv. fjármálaráðherra voru um kolefnisskattinn, sem ég nefndi hér fyrr, og kannski er þessi fjársýsluskattur af sama meiði.