140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[12:33]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður flutti góða ræðu og kom víða við. Hún minntist á að það hefði verið ákveðið að veita ábyrgð á innstæðum á Íslandi. Það er ekki ábyrgð, a.m.k. ekki ríkisábyrgð, á innstæðum á Íslandi og hefur ekki verið, ég held bara aldrei nema kannski þegar bankarnir voru ríkisbankar, þá má kannski segja að það hafi verið ríkisábyrgð á innstæðum. Það hefur ekki verið ríkisábyrgð síðan bankarnir voru einkavæddir. Það sem gerðist hins vegar var að ráðherrar lýstu því yfir að innstæður væru tryggðar og það er bara persónuleg yfirlýsing ráðherranna og væntanlega ríkisstjórnar. Það er ekki hægt að skuldbinda ríkissjóð nema með fjárlögum eða fjáraukalögum og það hefur ekki verið gert. Ég vildi bara koma því til skila að þetta væri ekki rétt.

Neyðarlögin tryggðu alla innstæðueigendur jafnt, þ.e. veittu innstæðum forgang í þrotabú, jafnt erlendum sem innlendum. Það er það sem Icesave-reikningshafar græða nú mest á. Hins vegar stofnuðu menn nýja banka (Gripið fram í.) og fluttu eignir þangað yfir á móti innstæðum og þannig var innstæðunum bjargað fyrir horn og allir græddu á því. Þess vegna hafa kröfuhafar ekki gert athugasemd við þetta, þeir hefðu tapað miklu meiru ef bankarnir hefðu farið í þrot, svo maður tali ekki um ef innstæðueigendur hefðu gert áhlaup á bankana. Þá hefðu þeir sennilega farið á hausinn og þá er hætta á því að greiðslukerfið hefði farið í rúst sem hefði haft skelfilegar afleiðingar fyrir heimilin.