140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[14:55]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef hér tvær spurningar til viðbótar sem mig langar að fá svör við. Fyrri spurningin lýtur að því hvers vegna þessi mikla andstaða er, m.a. í Þýskalandi, Bandaríkjunum og Japan, við þessa stofnfjáraukningu sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn þykist þurfa á að halda. Telur hv. þingmaður að þessar þjóðir trúi þá ekki á þær lausnir sem myntbandalagslöndin hafa neytt kreppulöndin til að innleiða? Er einhver önnur ástæða fyrir því að þau halda aftur af sér og vilja ekki taka þátt í þessari stofnfjáraukningu? Snýst þetta um það að þessar þjóðir vilji að Evrópusambandið leysi sín heimagerðu vandamál sjálft eða er þetta merki um ótrúverðugar lausnir á fjármálakreppunni í Evrópu?

Hin spurningin er hvort hv. þingmaður sé ekki sammála mér um að þó að við geymum málið fram í janúar verði jafnerfitt fyrir okkur að finna þessa 9 milljarða til að leggja inn í sjóðinn. Ef hv. þingmaður er sammála því, verður þá hv. þingmaður fylgjandi því að við aukum þetta stofnfjárframlag ef aðrar þjóðir gera það?