140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[17:52]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni um að eðlilegt væri að hér lægi fyrir hvaða umræður eru í gangi í öðrum löndum varðandi þessar gríðarlegu fjárhæðir. Það litla sem hægt er að finna um þetta í erlendum fjölmiðlum er meðal annars það að í Bandaríkjunum, Kanada og Japan séu miklar efasemdir vegna málsins á þeirri forsendu að Evrópa og evruríkin verði að taka þetta meira á sig sjálf vegna þess vanda sem blasir við þeim.

Er hv. þingmaður í eðli sínu sammála því að þau evruríki sem hafa verið að taka upp evruna — er hann sammála því sem kemur fram í málflutningi þessara ríkja, þ.e. Japans, Kanada og Bandaríkjanna, að evruríkin verði að taka á sig meira sjálf? Eða er hann fylgjandi því að ríkissjóður Íslands taki þátt í slíkum fjárveitingum til að bjarga misheppnuðu tilraunaverkefni á meginlandi Evrópu?