140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

fólksflutningar og farmflutningar á landi.

192. mál
[23:17]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort það sé ekki rétt að verið sé að endurskoða almenningssamgöngur í ráðuneytinu. Ég verð að viðurkenna að mér finnst það þess vegna vera svolítið skrýtið ef það er heildarendurskoðun í gangi.

Ég átta mig ekki alveg á því af því að hæstv. ráðherra sagði að íbúarnir nýttu þetta sem almenningssamgöngur og komið hefur fram að verðið hefur lækkað við samkeppnina, samkeppnin hefur skilað sér í lægra verði, þá væntanlega fyrir íbúana líka. Ég mundi ætla að það væri jákvætt.

Ég ætla ekkert að fara í fyrri orð hæstv. ráðherra en ég held að það væri betri bragur á því allra hluta vegna að við gengjum ekki frá þessu máli í skjóli nætur hér án meiri umræðu og spyr hæstv. ráðherra hvort hann hafi eitthvað á móti því að málið fari til hv. nefndar. Er hæstv. ráðherra ekki að skoða almenningssamgöngurnar? Ég er nokkuð sigldur maður og hef farið á hina ýmsu flugvelli í nokkrum heimsálfum í gegnum tíðina þó að ég hafi gert minna af því nú undanfarið, en ég kannast ekki við eina alheimsflugrútu hjá öllum þeim flugstöðvum sem ég kem í. Ég nokkuð viss um að sú ágæta yfirlýsing hæstv. ráðherra stenst ekki.