140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

skil menningarverðmæta til annarra landa.

315. mál
[23:29]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða lítið og einfalt frumvarp sem gengur eingöngu út á það að breyta gildistíma frumvarpsins. Í frumvarpi sem samþykkt var á þinginu á síðasta vori, um skil menningarverðmæta til annarra landa, var mælt fyrir um að þau lög mundu öðlast gildi 1. janúar næstkomandi. Þau lög haldast hins vegar í hendur við önnur frumvörp um minja- og safnamál sem þáverandi menntamálanefnd þingsins tók ákvörðun um að mundu haldast í hendur og hefðu öll gildistímann 1. janúar 2013. Þar af hafa frumvörp um Þjóðminjasafn Íslands og safnalög þegar verið samþykkt á þinginu en frumvarp um menningarminjar bíður hins vegar afgreiðslu og meðferðar í þinginu.

Þetta frumvarp þarf að haldast í hendur við þau lög sem þegar hafa verið samþykkt og er því lagt til í frumvarpinu að gildistöku verði frestað um eitt ár, til 1. janúar 2013.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir nefndarálitið rita sjö af níu nefndarmönnum í nefndinni en tveir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.