140. löggjafarþing — 38. fundur,  17. des. 2011.

Landsvirkjun o.fl.

318. mál
[00:24]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Frú forseti. Eins og hér hefur fram komið er þetta frumvarp í þremur hlutum ef svo má segja og ég ætla að fara hratt yfir sögu við fyrstu tvo hlutana. Varðandi fjármálagerningana vil ég segja að ótrúlegur hringlandaháttur hefur verið á skilgreiningum á fjármálaskuldbindingum. Í fyrra var lagatexta breytt, fyrst og fremst vegna óska Orkuveitunnar, og auðvitað gert á jafnskömmum tíma og við upplifum hér. Það var greinilega ekki gert að nægilega yfirlögðu og umhugsuðu ráði og því er komið hér aftur í ár með nýja túlkun og nýjar skilgreiningar til að uppfylla óskir þessa hagsmunaaðila.

Annar minni hluti, þ.e. fulltrúi framsóknarmanna í atvinnuveganefnd, vill segja af þessu tilefni að til að koma í veg fyrir að svona málsmeðferð og vinnubrögð endurtaki sig þurfa menn að gefa sér lengri tíma til að gaumgæfa tillögur sem koma frá hagsmunaaðilum. Einnig þyrfti að styrkja enn frekar faglega meðferð Alþingis, meðal annars með því að koma á fót lagaskrifstofu sem væri gefinn tími til að gaumgæfa ný þingmál og breytingartillögur.

Að mati 2. minni hluta er mikilvægt að gæta þess að hugtakanotkun í frumvarpinu verði ekki til þess að heimildir ráðherra eða Landsvirkjunar til að skuldbinda ríkissjóð verði rýmkaðar frá því sem ætlað var við samþykkt laga nr. 21/2011 heldur verði breytingar einungis til þess fallnar að eyða öllum vafa um að hvers konar fjárhagslegar skuldbindingar falli undir lög um Landsvirkjun.

Aðeins um III. kafla, um eignarhald á flutningsfyrirtækinu, þ.e. Landsnet hf. Þar vill 2. minni hluti taka undir þá hvatningu sem kom fram í umsögn Landsnets hf. að sú nefnd sem lagt er til að ráðherra skipi hefji störf sem fyrst og greini þann vanda sem er samfara aðskilnaði Landsnets frá Landsvirkjun. Jafnframt telur 2. minni hluti að það væri heppilegra fyrirkomulag ef flutningsfyrirtækið væri í beinni eigu ríkis og/eða sveitarfélaga en viðurkennir engu að síður að ekki verður hjá því komist að taka tillit til raunveruleika dagsins í dag.

Aðalathugasemdir 2. minni hluta snerta, líkt og hjá 1. minni hluta, frestun á gildistöku aðskilnaðarákvæðis er varðar Orkuveitu Reykjavíkur. Í tilskipun ESB um innri markað fyrir raforku, 2003/54/EB, er farið fram á að orkufyrirtækjum sé skipt upp. Þó er það þannig að aðildarríkjum EES-samningsins er heimilt að ákveða að ákvæði tilskipunar um sjálfstæði dreifiveitna nái eingöngu til fyrirtækja sem tengjast 100 þúsund notendum eða fleiri. Nú er það þannig að ekkert íslenskt orkufyrirtæki nær slíkum tengingafjölda og er aðeins fyrirsjáanlegt að Orkuveitan nái framangreindu marki til framtíðar litið en hún dreifir rafmagni um þessar mundir til u.þ.b. 96 þúsund notenda. Engu að síður ákváðu íslensk stjórnvöld árið 2008 að setja lög sem skylda öll orkufyrirtæki sem dreifa til 10 þúsund notenda eða fleiri að skilja að sérleyfis- og samkeppnisþætti í starfsemi fyrirtækja sinna. Þegar hafa fjögur fyrirtæki, eins og fram hefur komið, framkvæmt slíkan aðskilnað en þó með mismunandi hætti og hefur ekkert þeirra fengið fullgildingu eða staðfestingu Orkustofnunar á aðskilnaðinum. Orkuveitan er þessara fyrirtækja langstærst og það eina sem sjá hefði mátt fyrir að yrði að skilja að starfsemi sína samkvæmt skuldbindingum framangreindrar ESB-gerðar. Orkuveitan hefur þó ekki enn farið í það verk eða ekki náð að fullnusta það, og eins og fram hefur komið er þetta í fjórða sinn sem fyrirtækið óskar undanþágu frá lagaskyldu sinni af þeim sökum.

Í umsögnum einstakra aðila, meðal annars Fallorku eins og hér hefur komið fram, er bent á að Orkuveitan hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína sem og þá aðstöðu að vera óuppskipt til að keppa með óeðlilegum hætti á raforkumarkaði. Jafnframt hefur Samkeppniseftirlitið meint samkeppnislagabrot Orkuveitunnar til rannsóknar, bæði vegna ábendinga samkeppnisaðila og að eigin frumkvæði.

Það sem 2. minni hluta fannst þó einna sérkennilegast þegar málið var skoðað var að margir umsagnaraðilar og gestir staðfestu að engin samkeppni sé á neytendamarkaði fyrir raforku þrátt fyrir uppskiptingu raforkufyrirtækja. Það er að mati 2. minni hluta því ágengt álitaefni hvort uppskiptingin muni leiða til raunverulegrar samkeppni og hvort ávinningur innleiðingar ESB-gerðarinnar verði nokkur. Jafnvel vaknar sú spurning hvort innleiðingin leiði til hækkaðs verðs til almennings í ljósi undirboða til fyrirtækja og stærri notenda vegna þess að orkufyrirtækin hafa talsvert umframrafmagn til að selja. Sú spurning er því áleitin hvort ekki hefði verið eðlilegra að sækja upphaflega um undanþágu frá því að innleiða ESB-gerðina og komast þannig hjá uppskiptingu orkufyrirtækjanna.

Í máli fulltrúa Orkuveitunnar kom fram að fyrirtækið væri langt komið með að framkvæma uppskiptinguna en hún strandi m.a. á því að eigendahópur fyrirtækisins eigi erfitt með að ákveða hvaða rekstrarform á að vera á fyrirtækinu. Það er að mati 2. minni hluta ólíðandi að stærsta fyrirtæki landsins á þessu sviði dragi fæturna á sama tíma og önnur fyrirtæki sem eiga í samkeppni við það séu búin að leggja í umbreytingarkostnað og aukarekstrarkostnað, því að það kom fram í máli bæði umsagnaraðila og gesta sem og Orkuveitunnar, að kostnaður við þetta væri umtalsverður, til að mynda taldi Orkuveitan að hann væri um 100 millj. kr. og Fallorka sagði að árlegur aukarekstrarkostnaður væri um 1% af veltu. Að mati 2. minni hluta er fráleitt að gefa Orkuveitunni tvö ár til viðbótar til að klára verkið enda fóru fyrirtækið og iðnaðarráðuneytið aðeins fram á eins árs frestun. Á fundi nefndarinnar var upplýst að það hefði verið ríkisstjórnin sem lagði til tveggja ára frestun, en ekki var útskýrt nánar á fundum nefndarinnar af hverju það stafaði nema hugsanlega vegna þess að ríkisstjórnin treysti því ekki að Orkuveitan næði þessu á einu ári.

Að mati 2. minni hluta væri eðlilegast að fara yfir þetta mál allt og kanna alla kosti og galla, þar með talið að hverfa frá uppskiptingunni. Ef uppskiptingin skilar almenningi engu öðru en hærra heildarverði á raforku er betur heima setið en af stað farið.