140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

239. mál
[15:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Eitt sinn þegar mér ofbauð tilhneiging samfylkingarmanna til að afneita fortíð sinni í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum fékk ég hæstv. utanríkisráðherra til að viðurkenna að hann hefði verið í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. (SII: Munum fortíðina.) Samfylkingin er búin að vera núna í fjögur, fimm ár í ríkisstjórn og ber einmitt ábyrgð á þessum hluta að stærstu leyti því að veran er samfelld.

Mér finnst vera vaxandi tilhneiging til að fela skuldbindingar ríkissjóðs, láta líta slétt og fellt út og gleyma skuldbindingunum. Eins og hv. þingmaður nefndi á undan mér, Ásbjörn Óttarsson, er líka búið að taka til nútímans tekjur framtíðarinnar með því að semja við álfyrirtækin um að þau borgi skatta fyrir fram sem er alveg óþekkt. Þetta minnir allt óhuggulega mikið á það sem Grikkir gerðu þegar þeir fengu evruna, ríkisbókhaldið var hreinlega ekki rétt. Ég skora á alla hv. þingmenn í öllum flokkum að vera agaðir í fjármálum og sýna allar skuldbindingar. Það er svo mikilvægt fyrir skattgreiðendur landsins, og alveg sérstaklega fyrir börnin okkar að vita hvað bíður þeirra. Við erum að svindla á börnunum okkar með því að vera ekki með allar skuldbindingar uppi á borðum. Það sem við erum að ræða hér, að hækka aðeins iðgjaldið í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins eða fresta 52 milljarða skuldbindingu, er ekkert annað en, eins og stundum er kallað, að pissa í skóinn sinn.