140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

störf og stefna ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:25]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Eins og kunnugt er sýna tölur um þróun atvinnuleysis bata á íslenskum vinnumarkaði og því ber að fagna. Samt sem áður megum við ekki missa sjónar á þeirri staðreynd að þær tölur eru hærri en við höfum vanist hér á landi og hærri en við sættum okkur við til lengdar. Langtímaatvinnuleysi er böl sem verður að vinna á. Atvinnumál eru því forgangsmál þessarar ríkisstjórnar og í atvinnumálum hefur fjármálaráðuneytið hlutverki að gegna.

Tekjuöflun ríkissjóðs í gegnum skattkerfið verður alltaf að einhverju leyti íþyngjandi en mestu máli skiptir að í skattkerfinu ríki stöðugleiki og fyrirsjáanleiki svo einstaklingar og atvinnulífið eigi auðveldara með að leggja línurnar til lengri tíma. Nauðsynlegt hefur verið af ástæðum sem við öll þekkjum að auka tekjuöflun ríkissjóðs og því hafa fylgt breytingar á skattkerfinu sem nú er gert ráð fyrir að séu yfirstaðnar. Hlutur fyrirtækja í tekjuöfluninni er mun minni en einstaklinga en einungis 1/3 hluti fyrirtækja greiðir nú tekjuskatt. Þrátt fyrir það er lækkun ýmissa gjalda, svo sem atvinnutryggingagjalds, hafin.

Stöðugleikinn er sérstaklega mikilvægur fyrir nýfjárfestingar og af þeim sökum hafa stjórnvöld lagt áherslu á ívilnanir vegna þeirra. Lög hafa verið samþykkt sem veita heimild til fjárfestingarsamninga sem festa tekjuskattsprósentu í sessi fyrstu tíu rekstrarárin og ný lög um stuðning ríkisins við nýsköpun tóku gildi á árinu 2010. Afslátturinn miðast við 20% af útlögðum kostnaði vegna rannsókna og þróunar upp að ákveðnu hámarki. Með skattafslættinum eykst verulega stuðningur ríkissjóðs við nýsköpunarfyrirtæki og nemur um 2/3 framlags til Tækniþróunarsjóðs. Langstærstur hluti styrkjanna á árinu 2011 fór til fyrirtækja í upplýsingageiranum, í hugbúnaðargerð og tölvuleikjaframleiðslu.

Fyrirsjáanleiki er mikilvægur á fleiri sviðum en hjá fyrirtækjum, hann er einnig mikilvægur ríkissjóði. Ríkisbúskapurinn þarf að byggjast á lengri framtíðarsýn en aðeins til eins árs í senn. Áætlun um ríkisfjármál til lengri tíma er nauðsynleg fyrir okkur eigendur hans sem og lánveitendur ríkissjóðs og er líkleg til að stuðla að auknum aga í ríkisfjármálum og lækkun lántökukostnaðar þegar fram í sækir.

Stefnt er að því að frumvarp til laga um opinber fjármál verði lagt fram nú á vorþinginu. Er miðað við að ný lög leysi af hólmi gildandi lög um fjárreiður ríkisins frá 1997 sem voru á sínum tíma mikið framfaraskref en nýjum lögum er ekki síst ætlað að tryggja aukna ábyrgð og festu í fjármálum hins opinbera og að langtímasjónarmið séu lögð til grundvallar allri fjárlaga- og áætlanagerð. Agi í ríkisfjármálum er og verður áhersluefni þessarar ríkisstjórnar.

Líkan sem unnið verður í samvinnu fjármálaráðuneytisins og efnahags- og viðskiptaráðuneytisins mun nýtast til heildstæðrar áætlunargerðar. Með því verður mögulegt að meta ákvarðanir stjórnvalda áður en þær eru teknar og áhrif þeirra á ríkisbúskapinn til lengri tíma. Líkanið yrði einnig tæki til að auðvelda skipulagningu þess hvernig ríkissjóður undirbýr að takast á við skuldbindingar sínar svo sem vegna aldursdreifingar þjóðarinnar og endurgreiðslu skulda og áhrif þess á stöðu ríkissjóðs.

Í umræðunni undanfarin missiri hefur staða ríkisfjármála á Íslandi oft verið borin saman við stöðu sömu mála hjá nágrannalöndum okkar. Samanburðurinn hefur meðal annars dregið fram þá staðreynd að nágrannar okkar á Írlandi eru þeir einu sem leggja lægri tekjuskatt á fyrirtæki en við á Íslandi. Samanburður við Írland er athyglisverður, einkum í því ljósi að fjárlagahalli Írlands var 10,1% af þjóðarframleiðslu á síðasta ári miðað við 3,3% hér á landi. Einhverjum kynni að þykja staða Íslands í þessum málum öfundsverð. Við Íslendingar erum á góðri leið með að sigla ríkissjóði í gegnum brimskaflinn — svo algeng líking sé notuð um málefnið — án þess að hafa gengið of langt í niðurskurði eða skattahækkunum.

Virðulegi forseti. Það er okkur mannfólkinu eðlislægt eftir erfiða baráttu að slaka á þegar árangur er farinn að gera vart við sig. Við skulum vara okkur á því nú þegar hagtölur sýna bata að falla fyrir freistingum sem gefa ágóða til skamms tíma en gætu leitt til erfiðleika í rekstri ríkissjóðs til lengri tíma og samdráttar í þjónustu ríkisins frá því sem nú er. Það svigrúm sem gefst notum við til að stuðla að sjálfbærum hagvexti og til að (Forseti hringir.) treysta efnahagslegan stöðugleika.