140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

störf og stefna ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:13]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég vil byrja á að óska bæði þér og þingheimi gleðilegs árs. Ég vona að það verði gott en það sækir að mér efi. Ég vil líka óska nýjum ráðherrum velfarnaðar í nýjum störfum og fyrrverandi ráðherrum til hamingju með að vera aftur orðnir óbreyttir þingmenn.

Nú erum við komin hingað aftur á Alþingi Íslendinga á nýju ári, vonandi til þess að vinna þjóðinni gagn á erfiðum tímum. Það er alla vega ástæðan fyrir því að ég er hér, til að gera mitt besta, til þess að bjarga því sem bjargað verður og til þess að reyna eftir bestu getu að laga landið mitt því að mér finnst svo margt að á Íslandi.

Veganesti mitt, auk stefnuskrár Hreyfingarinnar, eru gildi Hreyfingarinnar. Þau eru leiðarljós mín en þar sem mér finnst þau eiga erindi víðar langar mig að deila þeim með þingheimi í þeirri veiku von að einhver grípi þau á lofti og geri þau að sínum. Þau eru réttlæti, heiðarleiki og hugrekki.

Ég hlustaði áðan á ræðu forsætisráðherra. Nú fer þetta kjörtímabil að styttast í annan endann. Við erum mörg orðin ansi langeyg eftir því að ríkisstjórnin efni að mörgu leyti ágæt áform sín. Forsætisráðherra nefndi mörg góð mál sem ég er meira en tilbúin að leggja lið. Ég hef fulla trú á því að okkur takist að senda drög að nýrri stjórnarskrá í dóm þjóðarinnar nú í vor og að á næsta ári fáum við nýja og betri stjórnarskrá.

Mér finnst ríkisstjórnin líka hafa lagt margt gott til er lýtur að nýtingu auðlindanna. Ég er ekki eins sannfærð og formaður Sjálfstæðisflokksins um að nýting auðlinda okkar sé sjálfbær. Við eigum að fara varlega og leyfa náttúrunni að njóta vafans. Lykilatriðið er að hámarka arðinn af auðlindum okkar og að þjóðfélagið allt njóti hans en ekki handvaldir vildarvinir stjórnmálamanna.

Þá komum við að verðtryggingunni, endurreisn bankanna og skuldum heimila og smærri fyrirtækja. Þá finnst mér tilfinnanlega vanta að grunngildi Hreyfingarinnar séu höfð að leiðarljósi: Réttlæti, heiðarleiki og hugrekki.

Það var ekkert réttlátt við hrunið en úrvinnslan verður að byggjast á réttlæti og heiðarleika. Ég get ekki séð að svo sé. Til þess að takast á við þann skuldakúf sem liggur eins og mara á heimilunum í landinu þarf hugrekki; hugrekki til þess að hugsa út fyrir rammann, hugrekki til þess að leita róttækra leiða, hugrekki til alvörubreytinga. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)