140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

millidómstig.

296. mál
[17:55]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Í mars á síðasta ári var haldin merkileg ráðstefna. Þar komu saman Dómarafélagið, Lögmannafélagið, Lögfræðingafélagið og Ákærendafélagið. Þar var rætt um þá brýnu nauðsyn að koma á millidómstigi og þó að lögmönnum sé kannski tamara að vera ósammála en hitt var mikil samstaða á þessari ráðstefnu um að framkvæma þyrfti fyrr en síðar og koma á millidómstigi.

Ég veit að hæstv. innanríkisráðherra sat þessa ráðstefnu. Ég veit líka að hann skipaði nefnd til að fara yfir málið. Nefndin klofnaði í afstöðu sinni á þann hátt að tveir aðilar töldu rétt að hefja þetta eingöngu hvað sakamálin snerti. Hvað sem því líður hefur ekkert heyrst frá hæstv. innanríkisráðherra um þetta málefni í marga mánuði. Þess vegna beini ég til hans fyrirspurn og spyr: Hvað er að frétta af vinnu ráðuneytisins við það að koma á millidómstigi? Kannski væri rétt líka að heyra af afstöðu ráðherrans sjálfs en mér skilst að hún sé jákvæð.

Þetta lýtur fyrst og fremst að reglum um milliliðalausa sönnunarfærslu um mat á sönnunargildi munnlegs framburðar. Hæstiréttur hefur ekki talið sig geta metið það og hefur þess vegna vísað málum aftur til héraðsdóms eða einfaldlega ómerkt þau.

Nú liggur mál fyrir Hæstarétti og náttúrlega koma mörg mál um bankahrunið fyrir dómstólana og ég tel að það væri afar óheppilegt ef við lentum í því aftur að mörgum þeirra yrði vísað til baka. Að mínu mati er verið að brjóta rétt á þeim sem eru sóttir til saka. Ég bendi líka á að við erum eina landið í Evrópu með þetta fyrirkomulag. Dómskerfi okkar er það ódýrasta á Norðurlöndum en ég held að í ljósi bankahrunsins, nýrra tíma og breyttra viðhorfa þurfi að ráðast í þetta hið allra fyrsta. Þess vegna beini ég þessari fyrirspurn til hæstv. innanríkisráðherra.