140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

millidómstig.

296. mál
[17:59]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson er greinilega ágætlega að sér um stöðu þessara mála. Hann fór yfir sögulegt ferli og ég skrifa upp á allt það sem þar var sagt að undantekinni einni dagsetningu. Umræddur fundur þar sem saman komu fulltrúar Ákærendafélags Íslands, Dómarafélags Íslands, Lögfræðingafélags Íslands og Lögmannafélags Íslands var haldinn í október árið 2010, ekki mars, 8. október, en inntakið í því sem hv. þingmaður sagði var allt hárrétt.

Í kjölfarið skipaði ég vinnuhóp til að fylgja eftir erindi sem barst frá þessari ráðstefnu. Það var áskorun um að komið yrði á fót millidómstigi. Í erindisbréfi vinnuhópsins sem skipaður var 13. desember sagði að hópurinn ætti að taka til skoðunar, og nú vitna ég í erindisbréfið, með leyfi forseta, „þörfina á að setja á fót hér á landi millidómstig sem taki bæði til sakamála og einkamála, kosti þess og galla og hvernig slíku millidómstigi væri best fyrir komið auk þess að leggja mat á þann kostnað sem slíku væri samfara“.

Þessi vinnuhópur skilaði af sér í júnímánuði 2011. Hann skilaði okkur mikilli og vandaðri skýrslu sem telur 30 síður og er þar að finna samanburð á nokkrum þáttum í dómskerfum Íslands, Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar um málskotsrétt og takmarkanir á honum í þessum löndum, réttinn um milliliðalausa sönnunarfærslu í þessum ríkjum, framtíðarskipan íslenska dómskerfisins og samanburð á kostnaði.

Í niðurstöðu vinnuhópsins kemur fram að full rök séu til að taka undir með áskorun félaganna, þeirra sem ég nefndi áðan, um að ráðast bæri í stofnun millidómstigs í einkamálum og sakamálum hér á landi. En eins og hv. þingmaður vék að var hluti hópsins, tveir af fjórum, á því máli að það samrýmdist best því markmiði að stofna þegar í stað millidómstig í sakamálum þar sem þörfin fyrir millidómstig í sakamálum væri mun brýnni en í einkamálum.

Hinn hluti vinnuhópsins taldi hins vegar að þegar í stað ætti að hefja undirbúning að stofnun millidómstigs sem tæki bæði til einkamála og sakamála.

Vinnuhópurinn setti fram í skýrslu sinni ábendingar um hvernig millidómstigi yrði komið á fót hér á landi og voru megintillögur hópsins settar fram í tíu töluliðum sem ég ætla ekki að lesa upp en er að finna í skýrslunni sem má nálgast á vef innanríkisráðuneytisins.

Þá tók hópurinn, eins og kom fram í erindisbréfinu, einnig til skoðunar hver kostnaður af millidómstigi gæti orðið. Mat hópsins var að beinn rekstrarkostnaður millidómstigs í sakamálum eingöngu yrði 190 millj. kr. á ári. Hins vegar hefði millidómstigið í för með sér sparnað á öðrum dómstigum þannig að rekstrarkostnaður dómskerfisins í heild mundi hækka um 125 millj. kr. á ári. Þetta eru sakamálin eingöngu. Síðan kæmi til stofnkostnaður sem metinn var rúmar 100 millj. kr.

Rekstrarkostnaður millidómstigs í einkamálum og sakamálum yrði 385 millj. kr. á ári að mati þessarar rannsóknarnefndar, en á sama hátt og að framan er getið mundi millidómstig hafa áhrif til sparnaðar á öðrum dómstigum þannig að rekstrarkostnaður dómskerfisins mundi hækka um 240 millj. kr. Stofnkostnaður millidómstigs í einkamálum og sakamálum yrði 164 millj. kr. Þess má geta að kostnaður við dómskerfið allt í dag er 1.517 milljónir.

Spurt er hvort ég muni beita mér fyrir því að komið verði á millidómstigi. Það er rétt sem fram kom í máli hv. þingmanns að ég hef verið þessu mjög meðmæltur enda byggði ég mitt álit á samstöðu nánast allra þeirra sem koma að réttarkerfinu. Ég held að það sé mjög mikilvægt að ef við ráðumst í grundvallarbreytingar á réttarkerfinu byggi það á víðtækri sátt og samstöðu. Eins og hér hefur komið fram eru mismunandi sjónarmið uppi og mikilvægt að unnið sé (Forseti hringir.) úr þeim. Við höfum verið með það í vinnuferli innan ráðuneytisins undanfarna daga og munum halda því áfram.