140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

ósnortin víðerni.

279. mál
[18:48]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir að vekja máls á þessu mjög athyglisverða og mikilvæga máli. Ég vil fyrst gera grein fyrir þeim sjónarmiðum mínum að ég hef verið talsmaður eignarréttarins og að við göngum af hófi fram þegar að þeim réttindum kemur. Ég tel hins vegar að við séum að ræða hér um mjög merkilegt mál sem ósnortin víðerni eru og sú sérstaða Íslands sem er í því fólgin. Mannkyninu fjölgar ört og þessum ósnortnu víðernum fer fækkandi og þau minnka sífellt eins og við þekkjum. Ég velti því fyrir mér hvort hæstv. ráðherra sé reiðubúinn til að fram fari þverpólitísk vinna við að skoða til framtíðar litið hvernig við getum nýtt þessa sérstöðu okkar og þá líka gagnvart þeim sjónarmiðum að ég er einn af þeim sem geta ekki séð það fyrir sér að allar jarðir verði keyptar upp af útlendingum, en hins vegar vil ég líka halda í það prinsipp að landeigendur geti keypt og selt eignir sínar. (Forseti hringir.) Þetta er spurning um hversu langt við viljum fara, (Forseti hringir.) það þarf að fara einhverja framsóknarleið í þessu máli að ég tel. Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort ekki sé (Forseti hringir.) rétt að leggjast yfir þetta mál þannig að við lendum ekki í þeim deilum sem nú nýlega hafa endurtekið sig.