140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[15:13]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það þarf ekki að koma með frumvarp um að banna staðgöngumæðrun. Hún er bönnuð. Það er ekki heimilt í lögum um tæknifrjóvganir núna. Þar stendur að það sé ekki heimilt. Staðgöngumæðrun er ekki heimil. Það er því óþarfi að koma með slíkt frumvarp, þannig er staðan.

Það er niðurstaða mín og meðflutningsmanna minna að heimila eigi staðgöngumæðrun. Þess vegna er áherslan á það að samið sé frumvarp að undangenginni ítarlegri skoðun, að semja eigi frumvarp sem heimili það til að fara í gegnum þá æfingu, ef hv. þm. vill kalla það svo. Síðan kæmi það frumvarp hingað til Alþingis og fengi alla þá meðhöndlun og meðferð eins og þurfa þykir.

Ég hefði getað komið með frumvarp sjálf, frumvarp um að heimila staðgöngumæðrun, en ég kaus að gera það ekki einmitt vegna þess að ég átta mig mjög vel á því að þetta er viðkvæmt mál. Þá er betra að taka tíma í það og gera það þannig að hægt væri að fá fleiri inn á það mál.

Aðeins varðandi Noreg og þær hugleiðingar sem þingmaðurinn var með, þá er einn grundvallarmunur á regluverkinu þar og hér. Í Noregi er eggjagjöf bönnuð. Hér er eggjagjöf leyfð. Það er einn af grundvallarþáttum málsins. Við erum komin á þann stað að við erum búin að leyfa allt. Við leyfum tæknifrjóvgun með þekktu og óþekktu sæði. Við leyfum einhleypum, giftum, í sambúð, samkynhneigðum, gagnkynhneigðum, öllum nema samkynhneigðum karlmönnum. Ég get algjörlega svarað því fyrir sjálfa mig og það á við um bæði minnihlutaálitin, að fyrir mér er það algjört jafnréttismál að það mundi gilda líka um samkynhneigða karlmenn. Ég hef ekkert við það að athuga. (Forseti hringir.) Ég tel í rauninni erfitt að ganga gegn því vegna jafnréttisspursmálsins.