140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[17:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um staðgöngumæðrun. Þetta er ekki frumvarp til laga um staðgöngumæðrun heldur þingsályktunartillaga þar sem lagt er til að tekið verði ósköp lítið skref í þessu máli og ekki hraðað sér um of. Ég er mjög ánægður með það, frú forseti, vegna þess að við höfum hraðað okkur ansi mikið í mörgum málum síðustu tvö, þrjú árin, við höfum farið mjög hratt og mjög geyst, ekki einu sinni fengið umsagnir eða gesti eða neitt, jafnvel í stóralvarlegum málum.

Þetta er reyndar stóralvarlegt mál og ég vil byrja á að þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur sérstaklega fyrir ræðu sína sem mér fannst mjög heilsteypt. Hún er á móti þessu af siðferðilegum ástæðum og hefur líka efasemdir um margt annað sem við höfum lögleitt sem er líka siðferðilega spurningavert.

Í heiminum eru að verða mjög miklar breytingar á grundvelli þess að í vísindaheiminum eru menn á fleygiferð að uppgötva alls konar hluti. Ég ætla ekki að nefna hluti eins og það að kona getur gengið með egg sjálfrar sín, það er hægt að kljúfa egg og setja það svo seinna meir í konuna sjálfa þannig að hún er bæði móðir sín og systir. Vísindin hafa skapað okkur svo mörg siðferðileg vandamál að það hálfa væri nóg. Við höfum gengið mjög langt í mörgum málum, eins og glasafrjóvgun og í sæðisgjöfum sem er kannski mjög einföld aðferð, þarf ekki mikilla vísinda við. Svo eru aðrir miklu erfiðari hlutir, eins og klónun en ég held að flestir séu sammála um að þar þurfi að stíga sérdeilis varlega til jarðar. Við glímum við siðferðileg vandamál og umræðan hefur borið því vitni og mér finnst það ágætt. Mér finnst það gott.

Hins vegar tek ég ekki undir að einhver sérstaklega mikill hraði sé á málinu. Þetta er nefnilega þingsályktunartillaga um að semja frumvarp sem verður lagt fyrir Alþingi og málið fær þá væntanlega enn meiri og betri umræðu þegar það kemur fram og fer til nefndar. Þá ræðir kannski eitthvert allt annað fólk um þetta sem hefur aðra sýn á hlutina. Þá munu koma ný sjónarmið frá umsagnaraðilum þannig að ég er ekki á því að hér sé sérstaklega hratt farið, mér finnst sérdeilis varlega farið.

Ég nefndi það við fyrri umr. að ég er yfirleitt á móti því að ríkið kássist upp á svona einkamál. Mér finnst þetta vera einkamál viðkomandi fólks. Auðvitað hefur verið nefnt af þeim sem eru mest á móti þessu að konur séu með þessu á einhvern hátt notaðar, jafnvel sem hýslar, sem minnir á „science fiction“ myndir, að þær séu einhverjir hýslar. Það er afskaplega ljótt orð. Þá erum við að tala um eitthvað allt annað, þá er fólk misnotað og það er bannað í stjórnarskránni. Mér finnst því að menn eigi ekki að blanda slíku saman. Auðvitað vitum við að raunveruleikinn er því miður þannig að fólk er misnotað, þannig er það. Við glímum við þann vanda sem gefur þessu máli dökkan blæ að það eru sögur um, og sennilega sannar, að konur séu misnotaðar í þriðja heiminum til að ganga með börn fyrir ríka Vesturlandabúa. Hér hefur líka verið nefnt að konur sem vilja viðhalda góðum líkama vilji ekki eyðileggja hann með því að ganga með barn og noti því svona aðferðir. Ég mundi segja að hvort tveggja sé ekki það sem málið snýst um. Málið snýst um að konum sem geta ekki átt börn og langar mikið til að eignast eigið barn sé gefið tækifæri með þessu.

Eins og ég gat um áðan tel ég að ríkið eigi ekki að skipta sér of mikið af þessum málum öllum saman. Þetta ætti fremur að vera mál einstaklingsins. Við þurfum að sjálfsögðu að ræða alls konar siðferðileg vandamál og álitamál sem koma upp og það höfum við gert í dag og það er það sem nefndin mun gera sem fær málið til skoðunar og á að semja frumvarpið. Það munu þeir þingmenn sem þá verða á þingi gera þegar það frumvarp kemur fram. Þá verður tæknin væntanlega komin enn lengra og flæði hugmyndanna kannski komið lengra því að þetta er allt spurning um hvernig heimsmyndin breytist. Ég man þá tíð þegar það að vera hommi þótti ljótt og fólk í þeim flokki lenti í miklu mótlæti. Við skömmumst okkar fyrir það í dag en þannig var tíðarandinn á þeim tíma. Tíðarandinn er stöðugt að breytast og tíðarandinn er breyttur hvað varðar mörg mál, meðal annars þetta.

Sumir hafa talað um hag barnsins. Ég hef varað menn við því að gera það vegna þess að menn vita í raun ekki hver hagur barnsins er. Hvað vill barnið eiginlega? Hvað er best fyrir barnið? Hver ætlar að segja mér það? Ég hugsa að einhverjir þingmenn hér hefðu aldrei orðið til ef fóstureyðingar hefðu verið leyfðar. Þá hefðu þeir aldrei orðið til. Þá er spurningin: Er það hagur barnsins að verða ekki til eða hvernig er það? (Gripið fram í: Hagur þingsins.) Já, það er spurning hvort það sé hagur þingsins, það er miklu betri spurning. Við erum að planta væntingum í huga barna um að þau þurfi endilega að vita hverjir kynforeldrar þeirra eru. Það vill svo til og það er þekkt, að ég hef ættleitt þrjú börn. Það er akkúrat enginn munur á þeim og hinum börnunum sem ég á, enginn munur, ég fullyrði það. Þeir sem segja að einhver kynbönd séu á milli fólks eru í raun að segja að mér þyki ekki jafnvænt um öll börnin mín sex. Það er náttúrlega fáránlegt. Ég get talað af reynslu.

Ég held að menn ættu að fara varlega við að planta einhverjum hugmyndum eða væntingum í huga lítilla barna sem eru nýfædd. Lítil börn þurfa bara umönnun og ekkert annað og það er sama hver gerir það. Sá sem annast lítið barn er foreldri þess, faðir eða móðir. Punktur. Það skiptir engu hvert kynforeldrið er, ég fullyrði það. Við skulum gæta þess að nota ekki litlu börnin til að færa rök á móti þessu máli, að þau þekki ekki kynforeldra sína. Reyndar þekkja þau kannski kynforeldra sína í þessu máli mjög vel, kannski best af öllum í þeim álitamálum sem við höfum verið að tala um. Í mörgum tilfellum þekkja börn ekki uppruna sinn. Víða í heiminum hrekst fólk undan stríðum, fellibyljum og ég veit ekki hverju, og börn verða viðskila við fjölskyldur sínar. Fjöldi fólks í heiminum þekkir ekki uppruna sinn, svo ég tali ekki um þau börn sem eru getin í hjónabandi en ekki endilega af foreldrunum.