140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[19:28]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir yfirgripsmikla ræðu. Hann kvartaði undan því að málið væri unnið á handahlaupum og hann væri neyddur til að taka afstöðu. Þessa dagana og þessi árin erum við mjög oft neydd til þess að taka afstöðu til hluta með afar stuttum fyrirvara þannig að ég sé ekki að þetta mál sé mikið frábrugðið því, alveg sérstaklega vegna þess að það er ekki einu sinni verið að leggja fram frumvarp. Það er verið að fresta málinu og svo á að koma fram með frumvarp og þá verður þetta rætt aftur, hugsanlega af núverandi hv. þingheimi eða einhverjum öðrum sem hefur þá verið kosinn. Hv. þingmaður getur því ekki kvartað undan hraðanum, frú forseti.

Síðan er það það sem hann sagði um að þetta væri nýlunda og það allt. Það var líka með frumvarpið um tæknifrjóvgun sem var nú á sínum tíma víkkað yfir á það að samkynhneigðir mættu fara í tæknifrjóvgun og það var samþykkt haustið 2010 og hv. þingmaður greiddi atkvæði með því umræðulaust.