140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það má segja að það sé ekki fréttnæmt þegar hv. þingmenn koma hingað og vekja athygli á leyndarhyggjustörfum ríkisstjórnarinnar sem er með sanni leyndarhyggjuríkisstjórnin með greini. Ég tel hins vegar rétt að ég upplýsi aðeins um gang mála gagnvart þeirri viðleitni minni — og nú er ég bara að taka eitt mál fyrir en þó gríðarstórt mál og það snýr að langstærstu einkavæðingu Íslandssögunnar þegar bankarnir voru einkavæddir í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Ég bað af ákveðinni ástæðu um hluthafasamkomulagið sem ekki var lagt til grundvallar þegar þessu var rennt í gegnum þingið á sínum tíma og hafði ég þó ásamt fleiri þingmönnum gert ýmislegt til að reyna að fá upplýsingar um hvað þar var á ferðinni. Ég bað um þetta fyrst nú um miðjan október og af þeim svörum og gögnum sem ég sé, þeim orðaskiptum sem voru á milli Alþingis og fjármálaráðuneytisins, má sjá að allt var gert af hálfu fjármálaráðuneytisins eða hæstv. fjármálaráðherra til að koma í veg fyrir að þau gögn litu dagsins ljós. Þau komu hins vegar um miðjan þennan mánuð að sjálfsögðu á ensku og að auki vantar umtalsverðar upplýsingar til að hægt sé að gera sér grein fyrir því nákvæmlega hvað hér var á ferðinni.

Virðulegi forseti. Ég vildi bara upplýsa þingheim og þjóð um þetta og að ég mun ganga eftir þeim upplýsingum sem vantar því við þurfum að fá skýra mynd af því hvað gerðist nákvæmlega, hversu mikill skaði varð af þessum gerðum ríkisstjórnar. Við höfum ekki enn þá upplýsingar til að meta það en eitt vitum við, virðulegi forseti, að það var gersamlega fyrir neðan allar hellur að þessi gögn skyldu ekki liggja fyrir þegar þetta mál var kynnt í þinginu og er í raun alveg ótrúlegt.