140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

staða íslenskrar kvikmyndagerðar.

[16:24]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Mig langar aðeins að fjalla um menningu sem fjárfestingu. Ég á mann sem hefur stúderað myndlist og myndlistarmarkaðinn. Hann hefur komist að þeirri niðurstöðu, með ítarlegum skrásetningum á öllum myndverkum seldum á íslenskum uppboðum, að íslensk myndlist er ein besta fjárfesting sem nokkur getur fjárfest í. Mjög örugg sem slík.

Ég held að menning og menningarsköpun sé líka mjög góð fjárfesting fyrir samfélagið. Íslensk menning er lítið styrkt af ríkinu. Þeim peningum sem við höfum þó sett í menningu, kvikmyndir, bækur, tónlist, myndlist — ég held að við fáum þessa aura margfalt til baka.

Hvar væri til dæmis íslensk ferðaþjónusta ef íslenskrar menningar nyti ekki við. Íslenskar bíómyndir bera ásýnd landsins okkar út í heiminn. Það er meðal annars þess vegna sem fólk vill sækja okkur heim. Íslenskar bækur, þar höfum við náð gríðarlegum árangri, flytja íslenska hugsun og íslenska heimsmynd og heimssýn beint úr kollinum á íslenskum höfundum í kollinn á lesendum um allan heim. Margir hafa af þessu alvöruatvinnu. Ég hef sjálf eiginlega alltaf unnið afleidd störf tengd menningarstarfi. Þau störf eru mun fleiri en afleidd störf tengd álverum.

Því segi ég: Ég vil fá að sjá hér fleiri kvikmyndaver og færri álver, því að hver króna sem er sett í menningarsköpunina sjálfa — ekki einhver kokteilboð — skilar sér margfalt til baka í því sem við köllum menningarverðmæti, en ekki síður í því eina sem sumir skilja: beinhörðum peningum.