140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

þjóðaratkvæðagreiðsla um nýja stjórnarskrá.

[10:31]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Í skýrslu forsætisráðherra sem gefin var við upphaf þessa þings kom fram að meðal þeirra verkefna sem forsætisráðherra leggur áherslu á er að ljúka vinnu við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Í samhengi við þá vinnu er forsætisráðherra búin að koma því margoft til skila að hún hefur áhuga á að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla. Jafnvel hefur verið nefnt að þjóðaratkvæðagreiðsla eigi að fara fram á þessu ári. Mig langar til að bera það upp við hæstv. forsætisráðherra hvernig hún sjái fyrir sér að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram. Um hvað á að kjósa?

Allir fræðimenn sem um hafa fjallað telja að tillögur stjórnlagaráðsins séu í besta falli ófullburða drög að nýrri stjórnarskrá. Spurningin er þessi: Telur forsætisráðherra raunhæft að vænta þess að samið verði á næstu dögum og vikum frumvarp til laga um nýja stjórnarskrá sem hægt er að bera undir þjóðina? Ég get sagt fyrir mitt leyti að ég tel fullkomlega óraunhæft að ætla að það gerist á næstu vikum. Þá er spurningin þessi: Hvað er það sem á að leggja fyrir þjóðina? Kemur til greina að leggja tillögur stjórnlagaráðsins eins og þær bárust þinginu undir þjóðina eða á þjóðaratkvæðagreiðslan ekki að fara fram fyrr en eftir að frumvarp hefur verið samið? Er kannski hugmyndin að þjóðaratkvæðagreiðslan fari fram eftir þinglega meðferð slíks frumvarps? Mér þætti sjálfum það alveg koma til álita. Umræðan um þjóðaratkvæðagreiðslu og stjórnarskrána er hulin slíkri þoku að það verður aðeins að fara að skýra línur.