140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[14:40]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Varðandi Vaðlaheiðargöng er ekki gert ráð fyrir að það verkefni verði fjármagnað úr ríkissjóði og ég tel einboðið að halda því verklagi áfram. Miðað við þær upplýsingar sem við höfum um stöðu ríkissjóðs er gert ráð fyrir að verkefnið, ef af verður, verði að ganga á sínum eigin forsendum og þær áætlanir og úttektir sem okkur hafa verið kynntar í fjárlaganefnd gera ráð fyrir því að það eigi að takast þó með þeim hætti og fyrirvara að skoða þarf betur fjármögnun verkefnisins og á hvaða tíma á að endurfjármagna það. Enn fremur hefur hæstv. fjármálaráðherra lagt fram óskir í þá veru að skoðað verði að styrkja eiginfjárstöðu Vaðlaheiðarganga ehf. Það er staðan á því verki og ég tel einboðið að fjármálaráðherra nýti sem fyrst þær heimildir sem hún hefur hvort tveggja á fjáraukalögum og fjárlögum til þess að hefjast handa við það verkefni.

Varðandi hina spurninguna, þá sem hv. þm. Helgi Hjörvar byrjaði á, er sem betur fer tiltekið í þingsályktunartillögunni á bls. 3 í e-lið í kaflanum um markmið um hagkvæmar samgöngur að áætlað er að hefja þá vinnu sem hv. þingmaður kallar eftir, eða eins og segir í e-lið, með leyfi forseta:

„Greindir verði kostir og gallar þess að í framtíðinni greiði ökutæki í samræmi við ekna vegalengd þar sem tillit yrði tekið til ytri kostnaðar jafnhliða því að núverandi kerfi sérstakra eldsneytisskatta yrði lagt niður.“

Ég kýs að túlka þá málsgrein með þeim hætti að það sé vilji í tillögunni til að nálgast þau sjónarmið sem hv. þingmaður varpaði fram og tek heils hugar undir að full er þörf á því að reyna að móta einhverja heildstæða stefnu í þá veru. Ég tel að með þeirri málsgrein sem þarna er sett niður sé stigið fyrsta skrefið í þá átt.