140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[17:58]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þm. Kristjáni L. Möller um það að ef við erum að bera saman forgangsröðun jarðganga þá eru Norðfjarðargöng langtum brýnni en Vaðlaheiðargöng og þá eiga Dýrafjarðargöng líka að koma á undan Vaðlaheiðargöngum.

Ég er líka sammála hv. þingmanni, ef ég skildi hann rétt undir lok máls síns, um það að Vaðlaheiðargöng verði að standa undir sér sjálf. Það hefur verið ítrekað á Alþingi að það sé forsenda verkefnisins að þau standi undir sér sjálf. Það leggur þær skyldur á okkar herðar að ganga úr skugga um að það sé hafið yfir eðlilegan vafa, að það sé ekki svo mikil áhætta fyrir ríkissjóð, að þetta lendi í raun á ríkissjóði þótt annað sé staðhæft, að það muni í reynd, í framkvæmd og í verki, taka frá öðrum brýnni verkefnum þegar á reynir. Um þetta snýst umræðan um þetta mál.

Gerðar hafa verið skýrslur, meðal annars skýrsla Hagfræðistofnunar Háskólans á sínum tíma, sem bar vott um mikla áhættu í þessu verkefni. Það hefur komið fram skýrsla eftir Pálma Kristinsson verkfræðing þar sem hann dregur fram marga áhættuþætti og svo er komin fram skýrsla IFS þar sem einnig, þó að hún sér bjartsýnni en hinar tvær, koma fram alvarlegir óvissuþættir. Þá spyr ég hv. þm. Kristján L. Möller: Finnst honum verjandi að taka þessa áhættu fyrir ríkissjóð ef það mun einmitt bitna á mun brýnni samgönguframkvæmdum eins og til dæmis Norðfjarðargöngum?