140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[19:03]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í þeim spám, sem geta ekkert verið annað en spár, um hvernig framtíðin verður getum við ekkert annað en reynt að taka alla þætti inn og horfa á það sem er í gangi, horfa á þróun á alþjóðlegum mörkuðum og möguleika Íslands. Hvernig stöndum við? Hvaða hugsanlegu vaxtakjör munum við fá o.s.frv.? Þetta geta aldrei verið annað en spár. Þess vegna er svo mikilvægt að vera varfærinn en vera ekki einhvers staðar uppi í háloftunum með væntingar og fullur bjartsýni.

Þó er ég full bjartsýni hvað varðar umferðarþunga eða umferð um þessi göng því að eins og ég þekki til fyrir norðan — og á þessu svæði veit ég af viðtölum við fólk að það telur og er þess fullvisst að það muni í auknum mæli skreppa til Akureyrar, eins og menn segja, þótt það eigi ekki endilega brýnt erindi. Það verður auðveldara að skreppa til dæmis frá Húsavík þó að maður eigi ekki brýnt erindi. Fólk verður meira á ferðinni að því tilskildu að verð á olíu og bensíni verði ekki uppi í hæstu hæðum og að verðmiðinn að göngunum verði ekki það hár. Það er nú eitt af því að þau verði þá notuð og verði sá valkostur sem fólk vill nota í staðinn fyrir að fara Víkurskarðið yfir sumartímann. Verðið verður auðvitað að vera þannig að fólk sækist eftir að fara þá leið.

Það er enginn vafi í mínum huga að verðið má vera nokkuð hátt yfir vetrartímann svo að fólk velji frekar að fara göngin en fara Víkurskarðið því að það eru margir sem sitja heima í staðinn fyrir að reyna að skreppa yfir til Akureyrar.