140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[19:21]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér var bryddað á mörgu og nokkrar spurningar fram reiddar. Sú fyrsta varðaði stofnbrautir og tengivegi, skilgreiningu á því. Stofnbrautir eru, eins og þingmaðurinn benti réttilega á, vegir þar sem 100 bílar fara að meðaltali um á degi hverjum. Þingmaðurinn benti á að það ætti við um tengivegina líka og þeir þyrftu að bera þungaflutninga að auki og hvort þetta væri ekki úrelt skilgreining.

Það er alveg rétt, það er svo að vissu leyti, og þetta er alveg rétt ábending. Hins vegar horfir Vegagerðin á það í þessu ljósi líka: Stofnbrautir eru fyrst og fremst brautir sem eru skilgreindar svo, ekki einvörðungu með tilliti til umferðarþunga heldur hvar þær liggja, hringvegurinn og aðrar brautir sem eru grundvallandi í umferðarkerfi okkar.

Hann vék að flugvellinum og framtíð hans, það hefur verið talað um hann hér í dag. Menn hafa horft til skipulagsvalds Reykjavíkurborgar í því efni annars vegar og vilja margra á landsbyggðinni hins vegar. Reyndar er rangt að stilla þessu svona upp vegna þess að í Reykjavík eru margir því fylgjandi að hafa flugvöllinn. Ég bý 300 metra frá flugvellinum og er ákafur stuðningsmaður þess að hann verði áfram í Vatnsmýrinni. Hins vegar er þetta málefni landsins alls og ég held að lausnin sé sú að láta landsmenn alla taka sameiginlega ákvörðun um málið.

Hv. þingmaður vék að höfnum og að skipulagsmálum almennt, annars vegar aðalskipulagi sem snýr að sveitarfélögunum og hins vegar landsskipulagi sem er nýlunda í lagaumhverfi okkar og er á vegum umhverfisráðuneytisins. Hann spyr: Rímar þetta allt saman; hafnargerðin, skipulagsvald sveitarfélagsins og síðan hið nýja landsskipulag? — sem er í rauninni aðeins ráðgefandi gagnvart sveitarfélögunum. Verkefnið er að sjálfsögðu að láta allar þessar áætlanir ríma saman. (Forseti hringir.) Ég kem nánar að því í síðara svari mínu.