140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[10:50]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þessi málflutningur kemur ekki á óvart frá hv. þingmanni. Hann bregst aldrei röngum málstað, hv. þingmaður. (BirgJ: Ekki fara í persónuna.) Það er þannig með þessa stuttu ræðu sem hann hér flutti að hann fór samfellt með rökleysu. Ég greiddi aldrei atkvæði með því að íslenska ríkið bæri lagalega ábyrgð á Icesave-reikningunum. Hann ruglar saman máli níumenninganna og því sem hér er til umræðu vegna þess að hann gerir ekki greinarmun á því hvort Alþingi fer með ákæruvald eða ekki og það er einungis vegna þess að Alþingi fer með ákæruvaldið í þessu máli sem það er hér til umræðu.

Hann heldur áfram með þann málflutning að Alþingi geti ekki tekið málið á dagskrá en þetta er í raun og veru atriði sem búið er að taka afstöðu til með því að það er hér á dagskrá, er til umræðu í dag, hv. þm. Birgitta Jónsdóttir. Þannig er það mál, það er búið að taka það til afgreiðslu.

Hann vísar í greinaskrif verjanda Geirs H. Haardes og hann snýr einfaldlega út úr þeim orðum sem þar eru höfð eftir, hann snýr út úr þeim. Ég leyfi mér að vísa til orða verjanda Geirs H. Haardes frá því í þessari viku. Í blöðunum í þessari viku er öllu því svarað sem hv. þingmaður kemur að, öllu.

Hann spyr hvort ég beri ekki virðingu fyrir fyrrverandi prófessorum í lagadeild Háskóla Íslands. Að sjálfsögðu geri ég það og ég ber líka virðingu fyrir öllum þeim fræðimönnum sem ég vísaði til og þeir, ólíkt þeim sem hv. þingmaður vísaði til, hafa haft tækifæri til að túlka lögin í ljósi þeirra breytinga sem átt hafa sér stað, t.d. á lögum um meðferð sakamála, í millitíðinni. Það er grundvallaratriðið. En hv. þingmaður, sem hingað kom upp til andsvars, lætur sem ekkert hafi gerst, hann er staddur á árinu 1963 eða nítján hundruð fjörutíu og eitthvað, ég veit ekki í hvaða veruleika hann býr. Hann verður að horfast í augu við veruleikann eins og hann blasir við okkur í dag. Það er sá veruleiki sem við þurfum að takast á við hér og Alþingi hefur fullt forræði á þessu máli.