140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[14:17]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður taldi upp nokkur atriði sem hann sagðist hafa kynnt sér, en ég hjó eftir því að hv. þingmaður nefndi ekki eitt atriði sem hann hlýtur að hafa kynnt sér eins og aðrir þingmenn Samfylkingarinnar. Ég kveikti á því þegar hann nefndi að það væri verið að gera þetta að pólitísku átakamáli. Ef hv. þingmaður fer til baka, rifjar upp og kynnir sér hvernig atkvæðagreiðslan var í þinginu voru það nákvæmlega samflokksmenn hans í Samfylkingunni sem léku taktískt pólitískan leik í þessu máli til að losa sína menn undan því að vera ákærðir.

Það skýrist mjög vel núna, virðulegi forseti, og hv. þingmaður ætti kannski að kynna sér málið. Ég bið hann að svara spurningunni: Hvernig túlkar hann ályktun Samfylkingarfélagsins í Reykjavík sem hótar þingmönnum flokksins því að þeir muni ekki komast í framboð ef þeir gera ekki eins og félagið segir? Hvernig túlkar hv. þingmaður það?