140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[14:19]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er með ólíkindum að hlusta á þessa afneitun samfylkingarmanna. Þetta er sama afneitunin og þeir hafa gagnvart því að hafa verið í ríkisstjórn frá 2007, gjörsamlega sneyddir því að viðurkenna að bera einna mesta ábyrgð á því hvernig fór, helstu klappstýrur útrásarinnar.

Svo láta þeir eins og það hafi engin áhrif á þá þegar flokksfélög eins og Samfylkingarfélagið í Reykjavík segja við þingmenn að ef þeir greiði ekki atkvæði eins og félagið segir muni þeir hafa verra af, þeir þurfi ekki að huga meira að framtíð í pólitík. Þetta er pólitík sem við viljum ekki sjá hérna inni, þarna er verið að beita grímulausum flokkspólitískum þrýstingi. Það er alveg ljóst að þeir þingmenn Samfylkingarinnar sem eitthvert bein hafa í nefinu ætla að láta réttlætið ná hér fram að ganga, ekki hinir.