140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[14:35]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get ekki rakið það á einni mínútu eða tveimur t.d. það sem Róbert Spanó, forseti lagadeildar, skrifaði í Fréttablaðið fyrir tíu dögum. Það er rökstuðningur, af því að honum var auðvitað vel kunnugt um þau sjónarmið sem fram koma í skrifum Ólafs Jóhannessonar til að mynda. Hann vekur reyndar athygli á því að Ólafur fjallar ekkert meira um það, hann segi þetta bara. En Róbert Spanó, forseti lagadeildar, fer í nokkuð ítarlegu máli yfir rökstuðning í málinu þannig að það vantar ekki rökstuðning úr þeirri átt. Það vantar heldur ekki rökstuðning frá lögfræðingi Alþingis varðandi það þegar forseti komst að niðurstöðu sinni. Ég vænti þess að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson hafi séð þann texta, það er einmitt rökstuðningur fyrir þeirri niðurstöðu að málið sé þingtækt.

Ef hv. þm. Árni Þór Sigurðsson er ósammála því þá (Forseti hringir.) færi hann rök fyrir máli sínu.