140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[15:25]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg):

Frú forseti. Þessi flókna umræða sem hefur staðið hér lengi dags hefur aðeins gert einn hlut algjörlega skýran í mínum huga og það er af hverju uppáhaldsrit þessarar þjóðar er Njálssaga. Hún snýst að verulegu leyti um ómerkilega lagakróka og átök og skrípaleik í kringum lög sem eru mannasetningar; aðferðir til að túlka þau á mjög mismunandi vegu.

Nú búum við svo vel á þinginu að þjóðin hefur í óendanlegri visku sinni kosið til setu hér fólk af ýmsum stéttum, úr ýmsum starfsgreinum og þess vegna erum við vel birg af lögfræðingum sem hafa hingað til í dag verið ósparir að miðla okkur af visku sinni. Til að mynda upplýsti hugsanlega reyndasti lögfræðingurinn í hópnum, nokkuð bólginn af þekkingu sinni, að hann hefði í raun tvær skoðanir á þessu máli, aðra sem hann hefði komist að í umboði þingsins, þegar hann veitti forstöðu þingnefnd til að rannsaka málin, og síðan aðra sem hann hafði víst komist að upp á eigin spýtur.

Allt er þetta ágætt og mjög eðlilegt að menn skipti um skoðun. Ég nefni þetta aðeins til að benda á, virðulegi forseti, að lög eru ekki þannig að á þeim sé aðeins ein túlkun. Lög er hægt að túlka á mismunandi vegu, en aftur í óendanlegum vísdómi sínum hefur þjóðin sett undir þennan leka með því að þrískipta valdinu sem sér um að reka þjóðfélagið. Þjóðin hefur skipað einn aðila til að setja lög, það er Alþingi. Þjóðin hefur skipað annan aðila til að sjá um framkvæmd laganna, það er kallað framkvæmdarvald. Síðan kemur þriðji aðilinn sem sker úr þegar deilur vakna, eins og stundum gerist, um hvað lögin þýða, hvernig eigi að túlka þau. Eins og við höfum gert hér í dag, þá getum við rifist fram og aftur um það hvernig beri að túlka ákveðin lög en sem betur fer er það ekki hlutverk okkar að dæma um hvaða túlkun laga sé rétt, okkar hlutverk er að setja lög, og setja eins góð lög og skýr og við mögulega getum, vegna þess að það eru fleiri en lögfræðingar sem þurfa að fara eftir þeim, og þá er betra að fólk skilji lögin.

Nú er það svo að þegar mál eru komin til réttvísinnar er það grundvallaratriði að hvorki framkvæmdarvaldið né löggjafarvaldið blandi sér í það ferli sem þá er komið af stað. Það er grundvallaratriði, það er líka grundvallaratriði að framkvæmdarvaldið blandi sér ekki í mál. Það sér það hver maður að ef það væri talið í lagi að ráðherrar væru í stöðugu sambandi við Hæstarétt og pöntuðu þar niðurstöður byggjum við ekki lengur í lýðræðisríki. Á sama hátt er ekki líft í því landi þar sem þingið, löggjafarvaldið, ætlar sér að segja dómstólum fyrir verkum.

Nú vill svo til að við höfum falið ákveðnum dómstóli að komast að niðurstöðu um ágreining, hvort lög hafi verið brotin eða ekki. Það er ekki okkar að skera úr um það. Það er dómstólsins.

Ég bendi á að það er margt umdeilanlegt og því miður er það svo að enginn mannlegur máttur er óskeikull, jafnvel ekki þjóðþing Íslendinga. Fyrir þingið voru lögð meðmæli um að fjórir aðilar yrðu ákærðir og sendir fyrir landsdóm. Þingið komst að mínu mati, og nú er ég kominn í huglæga túlkun, frá mínum bæjardyrum séð, að næstverstu niðurstöðu sem hugsanlegt var, sem sé að senda einn ráðherra úr fyrrverandi ríkisstjórn fyrir landsdóm. Versta niðurstaða sem þingið hefði hugsanlega getað komist að hefði verið að senda engan fyrir landsdóm. Sú niðurstaða þingsins hefði þýtt í eitt skipti fyrir öll að þingið liti svo á að stjórnmálamenn þyrftu ekki nú, fyrr eða framvegis að standa skil á verkum sínum fyrir dómi.

Ég bendi ykkur á, virðulegi forseti, að það er enginn sekur fyrr en dómstóll hefur komist að þeirri niðurstöðu. Hér á Alþingi dæmum við fólk hvorki sekt né sýknt saka. Það er ekki í okkar verkahring, það er ekki innan okkar getu.

Ég vil meina að þó að landsdómur sé undantekning í dómskerfi okkar gildi samt sú meginregla stjórnarskrárinnar að löggjafarvaldið eigi ekki að blanda sér í störf dómsvaldsins. Um þetta hafa lögfræðingar núna í þinginu, og raunar fleiri, leikmenn, flutt langar ræður og rakið sem sagt gömlu túlkunina, af mönnum sem nú eru horfnir af heimi og verða ekki keyptir til að hafa uppi lögfræðiálit framvegis, að þingið megi ekki skipta sér af landsdómi. Nú eru nýjar túlkanir, ný álit komin til sögunnar. Það segir mér sem ekki er löglærður, sem ekki er dómari, að uppi er ágreiningur um hvort þingið megi yfirleitt gera þetta.

Það er ekki eina spurningin sem ég þarf að svara hér frá samvisku minni. Má ég gera þetta? Má ég draga þessa ákvörðun til baka? Ég held að ég megi það ekki, ég hef að minnsta kosti ekki vissu um að ég sé að gera rétt ef ég gerði það.

Ég þarf líka, ef þingið kemst að þeirri niðurstöðu að draga skuli ákæru fyrir landsdómi til baka, að svara mjög stórri spurningu fyrir mig, í mínum huga. Ég hef unnið eið að stjórnarskrá lýðveldisins. Er mér þá sætt á þingi þar sem meiri hluti þingmanna er þeirrar skoðunar að löggjafarvaldið megi skipta sér af dómsvaldinu? Um þetta mun ég, ef þannig fer að ákærunni verði kippt til baka, þurfa að leita álits okkar bestu lögmanna. Ég ætla ekki að sitja áfram á þingi ef það er viðtekin lögfræðileg skoðun að ég sé á þingi sem hikar ekki við að blanda sér inn í störf dómstóla. Ég trúi á réttarríkið, ófullkomið sem það er. Hvernig svo sem dómstólar eru skipaðir treysti ég þeim til að komast að niðurstöðu eftir bestu samvisku og ég trúi því að það sé skylda mín og allra borgara hér að hlíta þeirri niðurstöðu.