140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[16:07]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, ég er ekki þeirrar skoðunar að málið hefði þurft að fara til þingmannanefndar á milli þess að við greiddum atkvæði um einstaka ráðherra og síðan þar til við greiddum atkvæði um þingsályktunina sjálfa. Það átti hver einasti þingmaður að vita, það var nú búið að ræða málið það mikið hér í þingsal, á göngum, í skúmaskotum og milli einstakra þingmanna um hvað þeir ættu að gera, menn voru búnir að velta þessu mjög mikið fyrir sér. Ég held að fólk hafi gert sér fullkomna grein fyrir hvað það var að gera þegar það kom hérna inn.

Matið um hvort ákæra ætti Geir H. Haarde eða ekki hafði með athafnir hans að gera eða athafnaleysi, óháð því hvað aðrir ráðherrar aðhöfðust eða athafnaleysi þeirra. Ég fór í gegnum það mat meðal annars í ræðu minni.